Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar - tilnefningar

Barnabókaverðlaun Reykjavíkur, eru veitt ár hvert við hátíðlega athöfn í Höfða síðasta vetrardag. Þau eru veitt höfundum og þýðendum barnabóka fyrir metnaðarfullar ritsmíðar og þýðingar fyrir börn. Markmið þessara virtu verðlauna er að vekja athygli á þýðingu góðra bókmennta í uppeldisstarfi og því sem vel er gert á þessum mikilvæga vettvangi íslenskrar bókaútgáfu. Verðlaunin eru því þrískipt, þ.e. veitt eru verðlaun fyrir bestu frumsömdu íslensku barnabókina, bestu þýðingu á barnabók yfir á íslensku og bestu myndskreytingu á íslenskri barnabók. Hér má sjá þær bækur sem tilnefndar eru til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar 2020.