Þú ert hér://Yfir 53 þúsund bækur lesnar í lestrarátaki Ævars vísindamanns

Yfir 53 þúsund bækur lesnar í lestrarátaki Ævars vísindamanns

Dregið var í lestrarátaki Ævars vísindamanns við hátíðlega athöfn í Borgarbókasafninu, Grófinni í dag. Í átakinu voru lesnar yfir 53 þúsund bækur, en íslenskir krakkar um allan heim (þar á meðal frá Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Hollandi, Sviss, Lúxemborg, Þýskalandi og Frakklandi) á aldrinum 6-16 ára tóku þátt.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, dró fimm krakka upp úr lestrarátakspottinum en þau voru úr Öldutúnsskóla, Smáraskóla, Álftanesskóla, Höfðaskóla og Hlíðaskóla.

Krakkarnir fá í verðlaun að vera gerð að persónum í æsispennandi ofurhetjubók, Ofurhetjuvíddinni, eftir Ævar Þór Benediktsson sem kemur út með vorinu. Þetta er í fjórða skiptið sem átakið er haldið og hafa samtals rúmlega 230 þúsund bækur verið lesnar í þessum fjórum átökum.

Átakið er styrkt af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Forlaginu, Brandenburg auglýsingastofu, Póstinum, Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO, Heimili og skóla, DHL á Íslandi, Barnavinafélaginu Sumargjöf og Þjónustumiðstöð bókasafna.

2018-03-12T19:05:08+00:0012. mars 2018|