Álfrún Gunnlaugsdóttir, rithöfundur og prófessor, er látin. Álfrún var fædd í Reykjavík 1938. Eftir stúdentspróf stundaði hún nám í bókmenntum og heimspeki á Spáni og í Sviss og varð að námi loknu fyrsta konan sem ráðin var í fasta stöðu við heimspekideild Háskóla Íslands. Þar var hún lektor frá árinu 1971, síðar dósent og loks prófessor í almennri bókmenntafræði allt til ársins 2006. Hún var sæmd heiðursdoktorsnafnbót við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands og var heiðruð fyrir störf sín með riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu.

Fyrsta skáldverk Álfrúnar var smásagnasafnið Af manna völdum sem út kom 1982 og eftir það sendi hún frá sér sjö skáldsögur. Sú seinasta, Fórnarleikar, kom út 2016. Fyrir fyrstu skáldsögu sína, Þel, hlaut Álfrún bókmenntaverðlaun DV og tvær bóka hennar, Yfir Ebrofljótið og Rán, voru tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Þá var Álfrún þrisvar tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, fyrir skáldsögurnar Hringsól, Hvatt að rúnum og Yfir Ebrofljótið. Nokkur verka hennar hafa verið þýdd og gefin út erlendis.

Forlagið sendir ættingjum og vinum innilegar samúðarkveðjur.