Sólfaxi – íslensku barnabókaverðlaunin

Stofnað var til Íslensku barnabókaverðlaunanna 1985 í tilefni af sjötugsafmæli rithöfundarins Ármanns Kr. Einarssonar og voru verðlaunin veitt í fyrsta sinn vorið 1986. Árið 2024 var fyrirkomulagi verðlaunanna breytt og eru þau nú eingöngu veitt fyrir myndríka bók. Að verðlaununum standa fjölskylda Ármanns Kr. Einarssonar, Barnavinafélagið Sumargjöf og Forlagið. Í dómnefnd sitja þrír aðilar, Sumargjöf skipar einn og Forlagið tvo, þar af einn myndhöfund. Verðlaunafé er 1.500.000 auk höfundarlauna. Forlagið gefur sigurhandritið út sem bók.

Forsendur

Eingöngu er óskað eftir óútgefnum handritum að myndríkum bókum; allt frá myndabókum fyrir yngstu lesendurna að myndasögum fyrir unglinga og öllu þar á milli. Gengið er út frá því að hlutfall og vægi mynda sé þannig að þær segi söguna að minnsta kosti til jafns við textann. Sé handritið unnið í samstarfi myndhöfundar og textahöfundar skiptist verðlaunafé jafnt á milli þeirra. Helmingur verðlaunafjár er greiddur út þegar niðurstaða liggur fyrir, hinn helmingurinn við útgáfu. Höfundarlaun eru greidd samkvæmt útgáfusamningi.

Síðustærð er frjáls og engin lengdarviðmið eru gefin en gengið er út frá því að sagan myndi sjálfstæða heild. Aldursviðmið eru sömuleiðis frjáls svo framarlega sem bókin hentar lesendum einhvers staðar á bilinu 0−18 ára. Ekki er heimilt að nýta gervigreind, hvorki við texta- né myndagerð.

Fyrirkomulag keppninnar

Hvenær er skilafrestur?

Að vori er auglýst eftir handritum til að keppa um verðlaun næsta árs. Auglýsingin birtist hér á heimasíðu Forlagsins auk þess sem henni er deilt á fréttasíðu og samfélagsmiðlum útgáfunnar. Skilafrestur er tiltekinn í auglýsingunni en gera má ráð fyrir að hann verði að hausti sama ár.

(Dæmi: Auglýsing birtist 7. maí 2024, skilafrestur er 1. október 2024, verðlaunabókin kemur út haustið 2025.)

Hverju á að skila inn?

Hægt er að skila keppnisgögnum inn á tvenns konar formi:

  1. Fullbúin saga er send inn á formi svokallaðra myndstiklna/sögutöflu (e. storyboard). Þar eru grófar skissur að öllum opnum bókarinnar og sá texti sem á að fylgja er skrifaður inn á eða við myndirnar, ýmist handskrifaður eða rafrænn. Með þessu fylgja a.m.k. tvær fullgerðar myndir.
  2. Fullbúin saga er send inn sem hefðbundið textaskjal. Á viðeigandi stöðum í textanum skal gera grein fyrir myndefninu, hvað hver og ein mynd sýni og jafnvel hvaða hughrif hún kveiki. Gæta þarf að því að lýsingarnar á myndunum séu skýrt aðgreindar frá meginmálinu, t.d. með letri eða lit. Með þessu fylgja a.m.k. tvær fullgerðar myndir ásamt ýtarlegum skissum að a.m.k. fjórðungi mynda.

Öllum keppnisgögnum er skilað inn á pdf-formi, hvort sem um texta eða myndir er að ræða. Senda má keppnisgögn inn í einu skjali eða sem nokkrar aðskildar skrár. Gæta þarf að því að heiti allra skráa feli í sér titil verksins.

(Dæmi: Titill handritsins er Í sól og sumaryl, skrárnar gætu t.a.m. heitað ISolOgSumarylHeild.pdf eða I_sol_og_sumaryl_texti.pdf, I_sol_og_sumaryl_skissur.pdf og I_sol_og_sumaryl_myndir.pdf.)

Þar sem samkeppnin er nafnlaus er mikilvægt að nöfn höfunda komi hvergi fyrir í keppnisgögnum. Þess í stað senda höfundar inn sérstakt fylgiskjal þar sem titill verksins er tilgreindur ásamt netfangi/netföngum höfundar/höfunda. Geta skal netfanga allra sem teljast höfundar handritsins.

Til að tryggja nafnleynd tekur ritari dómnefndar við öllum gögnum, kemur keppnisgögnum áfram til dómnefndar en heldur upplýsingum um netföng höfunda eftir hjá sér. Farið verður með öll keppnisgögn sem trúnaðarmál.

Hvert á að senda gögnin?

Allt efni er sent inn rafrænt á netfangið solfaxi@forlagid.is. Sé um þungar skrár að ræða er þátttakendum bent á að nýta sér WeTransfer eða sambærilegan hugbúnað sem finna má gjaldfrjálsan á netinu.

Hvernig gengur dómnefndarferlið fyrir sig?
Að skilafresti loknum tekur ritari dómnefndar öll keppnisgögn saman og kemur þeim til dómnefndar.

Dómnefnd metur gæði mynda og texta og samspil þar á milli. Hún horfir auk þess til þess að handritið henti til útgáfu og falli að þörfum markhópsins hvað lengd og efnistök varðar. Gera má ráð fyrir að dómnefndarferlið taki um það bil tvo mánuði.

Þegar búið er að velja verðlaunahandritið fær dómnefnd afhentar upplýsingar um netfang/netföng höfundar/höfunda og hefur samband við hann/þá. Ritari dómnefndar sendir öðrum þátttakendum tölvupóst og lætur þá vita að niðurstaða liggi fyrir. Að þessu loknu verður þeim gögnum sem bárust í keppnina eytt.

Dómnefnd getur því miður ekki rökstutt hvers vegna tiltekið handrit varð ekki fyrir valinu eða komið með tillögur að úrbótum.

Dómnefnd áskilur sér rétt til að hafna öllum handritum.

Hvað gerist svo?

Eftir að verðlaunahöfundi/-höfundum hefur verið tilkynnt um sigurinn fær myndhöfundur um það bil fimm mánuði til að ljúka við myndefnið.

Bókin fer í gegnum hefðbundið ritstjórnarferli en athugið að í því geta bæði texti og myndir tekið breytingum. Umbrot og hönnun kápu eru unnin í samstarfi höfundar/höfunda og útgefanda. Verðlaunahandritið kemur út hjá Forlaginu að hausti undir merkjum Vöku-Helgafells og er nafn verðlaunahafans kunngjört um leið.

(Dæmi: Auglýsing birtist 7. maí 2024, skilafrestur er 1. október 2024, niðurstaða liggur fyrir 1. desember 2024, allt efni þarf að vera tilbúið 1. maí 2025, tilkynnt er um verðlaunahafa og verðlaunabókin kemur út 1. október 2025.)

Nánari upplýsingar um verðlaunin veitir Guðrún Lára Pétursdóttir ritstjóri og formaður dómnefndar.

Íslensku barnabókaverðlaunin hafa verið veitt fyrir eftirtaldar bækur:

Emil og Skundi eftir Guðmund Ólafsson, 1986
Franskbrauð með sultu eftir Kristínu Steinsdóttur, 1987
Fugl í búri eftir Kristínu Loftsdóttur, 1988
Álagadalurinn eftir Heiði Baldursdóttur, 1989
Í pokahorninu eftir Karl Helgason, 1990
Gegnum þyrnigerðið eftir Iðunni Steinsdóttur, 1991
Benjamín dúfa eftir Friðrik Erlingsson, 1992
Brak og brestir eftir Elías Snæland Jónsson, 1993
Röndóttir spóar eftir Guðrúnu H. Eiríksdóttur, 1994
Eplasneplar eftir Þóreyju Friðbjörnsdóttur, 1995
Grillaðir bananar eftir Ingibjörgu Möller og Fríðu Sigurðardóttur, 1996
Margt býr í myrkrinu eftir Þorgrím Þráinsson, 1997
Heljarstökk afturábak eftir Guðmund Ólafsson, 1998
Leikur á borði eftir Ragnheiði Gestsdóttur, 2000
Sjáumst aftur … eftir Gunnhildi Hrólfsdóttur, 2001
Ferðin til Samiraka eftir Hörpu Jónsdóttur, 2002
Biobörn eftir Yrsu Sigurðardóttur, 2003
Leyndardómur ljónsins eftir Brynhildi Þórarinsdóttur, 2004
Háski og hundakjöt eftir Héðin Svarfdal Björnsson, 2006
Loforðið eftir Hrund Þórsdóttur, 2007
Steindýrin eftir Gunnar Theodór Eggertsson, 2008
Þvílík vika eftir Guðmund Brynjólfsson, 2009
Ertu Guð, afi? eftir Þorgrím Þráinsson, 2010
Flugan sem stöðvaði stríðið eftir Bryndísi Björgvinsdóttur, 2011
Hrafnsauga eftir Kjartan Yngva Björnsson og Snæbjörn Brynjarsson, 2012
Ótrúleg ævintýri afa eftir Guðna Líndal Benediktsson, 2014
Skuggasaga – Arftakinn eftir Ragnheiði Eyjólfsdóttur, 2015
Skóladraugurinn eftir Ingu Mekkín Beck, 2016
Er ekki allt í lagi með þig? eftir Elísu Jóhannsdóttur, 2017
Stormsker – Fólkið sem fangaði vindinn eftir Birki Blæ Ingólfsson, 2018
Rannsóknin á leyndardómum Eyðihússins eftir Snæbjörn Arngrímsson, 2019
Vampírur, vesen og annað tilfallandi 
eftir Rut Guðnadóttur, 2020
Ljósberi eftir Ólaf Gunnar Guðlaugsson, 2021

Vinnureglur Verðlaunasjóðs íslenskra barnabóka:

Verðlaunasjóður íslenskra barnabóka veitir Sólfaxa – íslensku barnabókaverðlaunin árlega að lokinni samkeppni þar sem höfundar skila handritum að myndríkri bók undir dulnefni. Eftirfarandi er verklag og vinnureglur:

Stjórn Verðlaunasjóðs íslenskra barnabóka:

Fulltrúi frá Forlaginu (Guðrún Lára Pétursdóttir, 2024)

Fulltrúi frá Forlaginu (Sigþrúður Gunnarsdóttir, 2024)

Fulltrúi frá Sumargjöf (Sölvi Sveinsson, 2024)

Fulltrúi frá fjölskyldu Ármanns Kr. Einarssonar (Kristín Ármannsdóttir, 2024, formaður stjórnar)

Verkefnastjóri útgáfu hjá Forlaginu gegnir stöðu ritara dómnefndar.

Fjármálastjóri Forlagsins heldur utan um fjármál Verðlaunasjóðs íslenskra barnabóka og tekur saman tölur fyrir árlegan aðalfund.

Vinnureglur Verðlaunasjóðs íslenskra barnabóka – með hliðsjón af samkeppnisreglum Rithöfundasambands Íslands.

  1. Auglýsingar og kynningar

Í auglýsingum og kynningum á handritasamkeppni Verðlaunasjóðs íslenskra barnabóka skal skýrt tekið fram að um handrit að myndríkri bók fyrir börn sé að ræða, hvernig og hvenær handritum skal komið til skila og hvaða aðilar skipa dómnefnd. Þar skal einnig kveðið á um verðlaunafé og titil verðlaunanna: Sólfaxi – íslensku barnabókaverðlaunin. Ef áskilinn er réttur til að veita engin verðlaun skal það tekið sérstaklega fram. Einnig skal auglýsa það sérstaklega að innsendum keppnisgögnum verði eytt eftir að dómnefnd hefur lokið störfum. Forgangsréttur til útgáfu eða birtingar verðlaunaverka skal einnig tilgreindur.

  1. Meðferð keppnisgagna

Öll meðferð keppnisgagna sé hin vandaðasta og skrár með upplýsingum um netföng keppenda tryggilega geymd hjá ritara dómnefndar sem ekki kemur að dómnefndarstörfum. Aðeins skal opna það skjal sem tengist vinningshöfum. Eftir að tilkynnt hefur verið að sigurhandrit hafi verið valið verður þessum skrám eytt ásamt öðrum innsendum keppnisgögnum.

  1. Dómnefndir

Þriggja manna dómnefnd sér um að velja handritið sem er verðlaunað: Forlagið velur tvo nefndarmenn, þar af einn myndhöfund, en Barnavinafélagið Sumargjöf einn.

  1. Verðlaunafé, úrslit og afhending verðlauna

Verðlaunaféð er 1.500.000 krónur, höfundagreiðslur svo til viðbótar. Dómnefnd skal í samráði við þá sem að keppninni standa sjá til þess að kynning á úrslitum og verðlaunaveiting sé með viðeigandi hætti.

  1. Samningar um útgáfu eða birtingu

Formaður dómnefndar fylgi því jafnan eftir að gerðir séu samningar um útgáfu eða birtingu verðlaunaverka eigi síðar en sex vikum eftir að úrslit eru kunngerð höfundi.

INNskráning

Nýskráning