Forlagið auglýsir eftir handritum fyrir Íslensku barnabókaverðlaunin 2020.

Ó, að vera unglingur! Með öllum þeim flækjum og fegurð sem fylgir. Það er vísindalega sannað að unglingsárin líða hægar en önnur, þrátt fyrir einstaka rússíbanareið – og það er mikilvægt að komast í góðar unglingabækur á leiðinni.

Forlagið og Verðlaunasjóður íslenskra barnabóka auglýsa eftir handriti til að keppa um Íslensku barnabókaverðlaunin 2020. Í þetta sinn er sérstaklega óskað eftir skáldsögu fyrir unglinga. Handritið skal vera að lágmarki 50 ritvinnslusíður að lengd, miðað við til dæmis grunnstillingu í Word. Skilafrestur er til og með 10. janúar 2020. Handritið á að merkja með dulnefni en rétt nafn höfundar, símanúmer og netfang þarf að fylgja með í lokuðu umslagi.

Handritum skal skila í fjórum eintökum til:

Verðlaunasjóður íslenskra barnabóka

Forlagið

Bræðraborgarstíg 7

101 Reykjavík


Að Íslensku barnabókaverðlaunum standa auk Forlagsins fjölskylda Ármanns Kr. Einarssonar rithöfundar, Barnavinafélagið Sumargjöf og IBBY á Íslandi. Dómnefnd skipuð fulltrúum þeirra, auk tveggja nemenda úr 8. bekk, velur sigurhandritið sem kemur út hjá Forlaginu haustið 2020. Verðlaunin nema 750.000 krónum auk höfundarlauna.

Verðlaunasjóðurinn áskilur sér rétt til að veita ekki verðlaunin ef ekkert handrit berst sem uppfyllir kröfur dómnefndar.

Íslensku barnabókaverðlaunin hafa verið veitt í rúm 30 ár og undanfarin ár hefur metfjöldi handrita borist. Það ber vott um mikla grósku í skrifum fyrir börn og unglinga sem allt bókafólk hlýtur að fagna.

Nánari upplýsingar um verðlaunin og handritaskil má finna hér.

INNskráning

Nýskráning