Hannes Pétursson og Steinunn Sigurðardóttir sæmd heiðursdoktorsnafnbót

Skáldin Hannes Pétursson og Steinunn Sigurðardóttir voru sæmd heiðursdoktorsnafnbót frá Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands í Hátíðasal skólans mánudaginn 23. maí.

Hannes hefur á löngum ferli hlotið fjölda viðurkenninga og verðlauna fyrir verk sín. Má þar nefna Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar, Henrik Steffens-verðlaunin þýsku, Silfurhestinn og verðlaun úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins. Árið 1993 hlaut hann Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir ljóðabókina Eldhyl og var tilnefndur til sömu verðlauna 2006 og 2018 fyrir næstu tvær ljóðabækur, Fyrir kvölddyrum og Haustaugu. Þá var hann tilnefndur til Bókmenntaveðlauna Norðurlandaráðs fyrir fjórar af bókum sínum; Stund og staði, Innlönd, Heimkynni við sjó og 36 ljóð. Hannes var kjörinn heiðursfélagi Rithöfundasambands Íslands árið 1991. Ljóðabækur Hannesar og stök ljóð hafa verið þýdd og gefin út á mörgum tungumálum.

Steinunn Sigurðardóttir gaf út sína fyrstu ljóðabók aðeins nítján ára að aldri. Á löngum og farsælum ferli hefur hún sent frá sér fjölbreytt efni; skáldsögur, leikverk, smásögur og sannsögur, auk ljóða. Verk hennar hafa notið mikilla vinsælda og hún hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir ritstörf, meðal annars Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar árið 2014 og Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 1995 fyrir skáldsöguna Hjartastað. Bækur hennar hafa verið gefnar út víða erlendis og hlotið góðar viðtökur. Í Frakklandi var gerð kvikmynd eftir skáldsögu hennar, Tímaþjófnum.

Hér er hægt að sjá streymi af athöfninni.

INNskráning

Nýskráning