Guðmundur Óskarsson

Guðmundur Óskarsson

Guðmundur Óskarsson er fæddur í Reykjavík 22. desember 1978. Hann gekk í barnaskóla í Breiðholti og Grafarvogi en ferðaðist með strætisvagni í Menntaskólann í Reykjavík þaðan sem hann útskrifaðist af náttúrufræðibraut 1999. Í framhaldi af því hóf hann nám í lyfjafræði við Háskóla Íslands en hætti snemma; hann tolldi betur í íslensku og sálfræði en hefur ekki lokið námi.

Áratuginn 2005-2014 vann Guðmundur sem óbreyttur skrifstofumaður í Landsbankanum samhliða ritstörfum. Þá komu út bækurnar Vaxandi nánd (2007, örsögur), Hola í lífi fyrrverandi golfara (2008, skáldsaga) og Bankster (2009, skáldsaga). Fyrir þá síðastnefndu hlaut hann Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fagurbókmennta. Bankster hefur komið út á þýsku og dönsku.

Guðmundur lét lítið fyrir sér fara á ritvellinum þar til skáldsagan Villisumar kom út haustið 2016; feðgasaga sem á rætur í því að árið 2011 tók höfundurinn þátt í að stofna fjölskyldu.

Smásögur eftir Guðmund hafa birst í kennslubók fyrir gagnfræðaskólanema og í ýmsum safn- og tímaritum, erlendum sem íslenskum.