Jón Hjartarson hlýtur Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar

Jón Hjartar­son hlýtur Bók­mennta­verð­laun Tómasar Guð­munds­sonar 2021 fyrir Troðningar. Ljóðabókin er gefin út á vegum JPV útgáfu. Jón Hjartarson var um árabil leikari hjá Leikfélagi Reykjavíkur og hefur leikið ótal hlutverk á sviði, í sjónvarpi, útvarpi og kvikmyndum. Jón er höfundur fjölmargra leikrita og leikgerða fyrir börn og fullorðna, auk barna- og unglingabóka. Hann hefur einnig skrifað samtalsbækur og samið fjölda skemmtiþátta, pistla og söngtexta. Troðningar er fyrsta ljóðabók hans.

Í dóm­nefnd sátu Sif Sig­mars­dóttir, Guð­rún Sól­ey Gests­dóttir og Ey­þór Árna­son.

Úr umsögn dómnefndar:

Troðningar eftir Jón Hjartarson er kraftmikið verk um hið óvænta í hinu augljósa, fegurðina í hversdagsleikanum og mikilfengleika þess smáa.

Í bókinni fer Jón um víðan völl. En hvort sem yrkisefnið er náttúran, sagan eða samtíminn er sjónarhornið ávallt óvænt. Þekkt minni eru færð í nýjan búning. Kímnar hvunndagsmyndir eru dregnar upp innan um vísanir í stórskáldin. Hið hversdagslega verður ljóðrænt, hið háfleyga hversdagslegt.

Ljóðin eru í senn einföld og blæbrigðarík. Stíllinn einkennist af hugvitssemi og lipurð og er glettnin aldrei langt undan. Hvergi er þó slegið af ástríðunni fyrir efninu. Jón fer á flug í náttúruljóðum sínum. Þar lýsir hann gjarnan því sem fyrir augu ber á götum Reykjavíkur. Hann dregur upp skýrar myndir, ríkar af andrúmslofti, svo að borgin verður ljóðræn hvort sem um ræðir umferðaræðar eða Öskjuhlíð.

Í ljóðum sínum sýnir Jón fram á að í lífinu leynist margbreytileikinn oft í því einfalda. Þann mótsagnakennda sannleik má heimfæra á verkið Troðninga. Í einföldum myndum sem settar eru saman af hugkvæmni, hlýju og kímni leynist svo miklu meira en virðist við fyrstu sýn.

INNskráning

Nýskráning