Margrét Tryggvadóttir, Rán Flygenring og Ævar Þór Benediktsson hljóta Vorvindaviðurkenningu IBBY árið 2022

IBBY á Íslandi veitti Margréti Tryggvadóttur og Ævari Þór Benediktssyni Vorvinda viðurkenningu 2022 fyrir framlag þeirra til barnamenningar á Íslandi.

Margrét Tryggvadóttir fékk viðurkenningu fyrir öflugt starf sitt sem barnabókarithöfundur og fyrir að vera afar kröftug talskona barnabókmennta. Hún hefur skrifað fjölbreyttar bækur, til dæmis margverðlaunaðar fræðibækur fyrir börn sem hlotið hafa miklar vinsældir. Hún skrifaði einnig spennandi unglingabók, Sterk. Sú bók fól í sér það nýnæmi að ákveðnir hópar í samfélaginu, sem lítið sem ekkert hefur verið skrifað um á íslensku áður, gegndu aðalhlutverki í sögunni. Margrét hefur einnig skipað stóran sess á sviði barnabókmennta með því að vera mjög ötull málsvari barnabókmennta og barnabókaútgáfu.

Rán Flygenring myndhöfundur fékk viðurkenningu fyrir ómtetanlegt framlag sitt til barnamenningar á Íslandi. Rán er einn af þeim myndhöfundum Íslands sem hefur stíl sem sérhver landsmaður þekkir strax. Hún hefur myndlýst ótal margar vinsælar barnabækur þar sem hæfileikar hennar sem flinkur myndhöfundur, frábær húmoristi og góður sögumaður fá að njóta sín vel. Smitandi kraftur, leikgleði, lífsgleði, ævintýri og húmor einkenna hennar höfundaverk Ránar.

Aðstandendur Skólaslita – lestrarhvetjandi verkefnis, hlutu viðurkenningu fyrir einstakt framlag sitt til barnamenningar. Skólasamfélagið á Reykjanesi ásamt Ævari Þór Benediktssyni og Ara Yates útfærðu þróunarverkefnið, Skólaslit – lestrarhvetjandi verkefni sem er öllum aðgengilegt á vefsíðu verkefnisins. Í október síðastliðnum birtist einn kafli daglega af hryllingssögunni frábæru, Skólaslit, eftir Ævar Þór Benediktsson, sérstaklega samin fyrir þetta verkefni, ásamt vandaðri myndlýsingu Ara Yates. Á Íslandi tóku rúmlega hundrað grunnskólar um allt land þátt og fengu kennarar og nemendur tækifæri til að setja efni tengt sögunni á hugmyndavegg vefsíðunnar.

INNskráning

Nýskráning