Um Mál og menningu

Bókmenntafélagið Mál og menning var stofnað 1937 af hópi róttækra rithöfunda og bókmenntamanna undir forystu Kristins E. Andréssonar. Sami hópur hafði áður staðið að útgáfu tímaritsins Rauðir pennar. MM var upphaflega eins konar bókaklúbbur, seldi félagsmönnum sínum bækur í áskrift og markmiðið var ekki síst að lækka bókaverð til almennings, en frá árinu 1938 gaf félagið líka út Tímarit Máls og menningar. Félagasöfnun gekk mjög vel fyrstu árin en heimsstyrjöldin gerði útgáfunni erfitt fyrir, bæði af praktískum ástæðum (það var til dæmis pappírsskortur í landinu) og pólitískum, því framan af stríðinu – þar til herir Hitlers réðust inn í Sovétríkin – voru íslenskir sósíalistar mjög einangraðir í stjórnmálum landsins. Stjórn MM fór þá leið að renna fleiri stoðum undir félagið með því að stofna svokallað félagsráð árið 1940. Þar fékk útgáfan til liðs við sig borgaralega menntamenn, eins og til dæmis Sigurð Nordal, og reyndi að höfða til fleiri þjóðfélagshópa. Í félagsráðinu áttu 35 manns sæti og skyldu að jafnaði sjö vera kosnir til fimm ára í senn. Félagsráðið hafði æðsta vald í málefnum félagsins, það var og er eins konar ígildi hluthafafundar, og kaus félaginu stjórn. Kristinn réð þó lengst af mestu um stefnu og starf bókmenntafélagsins og útgáfunnar Heimskringlu (stofnuð 1934) sem Mál og menning átti líka. Á seinni hluta sjötta áratugarins réðst MM í það stórvirki að byggja húsið á Laugavegi 18, þar sem Bókabúð Máls og menningar var síðan opnuð síðla árs 1961. Kristinn fékk verulegan fjárstyrk frá Sovétríkjunum til að byggingarinnar, eins og sagnfræðingar hafa síðan sýnt fram á, enda var húsið stundum kallað Rúblan.

Kristinn var framkvæmdastjóri bókmenntafélagsins Máls og menningar til 1971, en hann lést tveimur árum síðar. Á ýmsu gekk í starfi félagsins eftir það, eins og reyndar alla tíð, ekki síst í kringum starfslok Sigfúsar Daðasonar sem tekið hafði við af Kristni, og víða hefur verið fjallað um. Á síðasta áratug 20. aldar var Mál og menning orðin stærsta bókaútgáfa landsins. Um aldamótin var rekstur útgáfunnar færður í hlutafélag sem heitir Mál og menning – Heimskringla ehf. og hann var síðan sameinaður Vöku-Helgafell þegar útgáfan Edda var stofnuð. Hún sendi frá sér mörg stórvirki, meðal annars nýja útgáfu Íslenskrar orðabókar, en lenti fljótlega í fjárhagserfiðleikum sem varð til þess að Björgólfur Guðmundsson keypti meirihlutann í félaginu en Mál og menning var þó áfram meðeigandi. Reksturinn var eftir sem áður erfiður og svo fór að Edda seldi frá sér bókabúðareksturinn, meðal annars á Laugavegi 18, og fylgdi vörumerkið „Bókabúð Máls og menningar“ með í kaupunum. Húsið var hins vegar eftir sem áður í eigu MM bókmenntafélags sem seldi það 2007 til að kaupa aftur bókaútgáfu Eddu, þar á meðal vörumerkin Mál og menningu og Vöku-Helgafell. Bókaútgáfuhluti Eddu var síðan sameinaður JPV útgáfu og Forlagið stofnað, síðla árs 2007. Mál og menning bókmenntafélag átti helming bókaútgáfunnar, en Jóhann Páll Valdimarsson og sonur hans Egill Örn hinn helminginn. Forlagið var langstærsta bókaútgáfa landsins og því vegnaði vel. Í ársbyrjun 2017 ákvað Jóhann Páll að selja sinn hlut og átti Mál og menning eftir það 87% hlut en Egill Örn, framkvæmdastjóri Forlagsins, 13%. Árið 2020 var unnið að því að selja sænska félaginu Storytel meirihlutann í Forlaginu en frá því var horfið af ýmsum ástæðum, m.a. vegna þess að erfiðlega gekk að gera sátt við Samkeppniseftirlitið um söluna, og í staðinn var gerður samningur við Storytel um stóraukna hljóðbókaútgáfu. Vorið 2021 keypti Mál og menning bókmenntafélag síðan hlut Egils Arnar í Forlaginu og er nú eini eigandi þess.

Forlagið er stærsta bókaútgáfa landsins og gefur út undir ýmsum nöfnum (Mál og menning, Vaka-Helgafell, JPV útgáfa o.fl.) og rekur jafnframt eina öflugustu bókabúð landsins á Fiskislóð, í húsi sem Forlagið á í gegnum félagið Vegamót, en svo hét líka félagið sem byggði Laugaveg 18. Mál og menning er því hvort tveggja, eitt af vörumerkjum Forlagsins en um leið eigandi þess. Fyrirtækið veltir rúmlega einum milljarði á ári.

Mál og menning bókmenntafélag er rekið eins og sjálfseignarstofnun, þótt það teljist félagasamtök, og á sem fyrr segir Mál og menningu Heimskringlu ehf., sem þó hefur litla starfsemi, og Forlagið ehf. Það starfar eftir skipulagsskrá og félagsráðið hefur æðsta vald í málefnum þess og endurnýjar sig sjálft. Líkt og í sjálfseignarstofnunum er ekki um það að ræða að félagsmenn geti tekið út fé eða hagnast á starfseminni.

Félagsráðið hittist minnst einu sinni á ári, á aðalfundi að vori, en stundum er fundað oftar, ef þurfa þykir, enda hvílir mikil ábyrgð á Máli og menningu sem eina eiganda Forlagsins.

Halldór Guðmundsson, stjórnarformaður MM

Félagsráð Máls og menningar eftir aðalfund fyrir árið 2022, haldinn 7. maí 2023:

Kosin til ársins 2023: Páll Valsson, Stefán Jón Hafstein, Halldór Guðmundsson,  Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Örnólfur Thorsson, Daníel Helgason.

Kosin til ársins 2024: Árni Kr. Einarsson, Már Guðmundsson, Þorleifur Hauksson, Stella Soffía Jóhannesdóttir, Æsa Bjarnadóttir, Þorsteinn Daði Gunnarsson. 

Kosin til ársins 2025: Anna Einarsdóttir, Hólmfríður Matthíasdóttir, Auður Jónsdóttir, Ólafur Ólafsson, Borgar Jónsteinsson, Guðmundur Andri Thorsson, Þröstur Ólafsson.

Kosin til ársins 2026: Árni Sigurjónsson, Einar Kárason, Elín Edda Pálsdóttir, Pétur Gunnarsson, Gísli Sigurðsson, Vésteinn Ólason.

Kosin til ársins 2027: Sigþrúður Gunnarsdóttir, Silja Aðalsteinsdóttir, Sigurjón B. Sigurðsson, Sverrir Norland, Arndís Þórarinsdóttir, Tómas R. Einarsson, Ragnhildur Helgadóttir.

Stjórn Máls og menningar bókmenntafélags og jafnframt stjórn Máls og menningar-Heimskringlu er þannig skipuð:

Halldór Guðmundsson, formaður, Örnólfur Thorsson, varaformaður, Sigþrúður Gunnarsdóttir, Árni Kr. Einarsson og Anna Einarsdóttir. Fyrsti varamaður í stjórn bókmenntafélagsins er Daníel Helgason.

INNskráning

Nýskráning