Áður en þú sofnar er fyrsta skáldsaga norska höfundarins Linn Ullmann.

Karin Blom er ólíkindatól, ung kona sem gerir það sem hugur hennar stendur til þá stundina: forfærir karlmenn, blekkir, spinnur upp sögur og ýkir, en lærir smám saman að segja satt.

Áður en þú sofnar er saga fjölskyldu hennar, allt frá því Rikard afi hennar setti á fót saumastofu í New York á þriðja áratugnum. Karin segir frá af ósvikinni frásagnargleði og sveiflast milli fantasíu og raunsæis á sannfærandi hátt.

Í bókinni renna furðusögur, neyðarleg atvik og djúp alvara saman í áhrifamikilli frásögn af hinni sérstæðu Blomfjölskyldu.

Sólveig B. Grétarsdóttir þýddi.