Höfundur: Jóhanna Kristjónsdóttir

Á Vesturlöndum er iðulega dregin upp býsna einsleit mynd af konum í arabískum samfélögum – þær eru kúgaðar, ómenntaðar og ganga allar með slæðu eða alveg hulið andlit.

Jóhanna Kristjónsdóttir, sem býr yfir yfirgripsmikilli þekkingu á arabaheiminum og hefur dvalið þar langdvölum, hélt til fundar við konur í fjórum Austurlöndum í því skyni að kynnast stöðu þeirra og viðhorfum innan frá. Viðmælendurnir eru á ýmsum aldri og úr ýmsum stéttum, allt frá 14 ára sölustúlku til konu á ráðherrastóli. Þær búa í Sýrlandi, Egyptalandi, Óman og Jemen.

Eins og löndin fjögur bera hvert sinn svip eru konurnar hver með sínu móti, sérhver þeirra hefur sitt til málanna að leggja og sína sögu að segja. Hér birtast þær ljóslifandi og sýna að þær falla fæstar að vestrænu staðalmyndinni. Höfundur tekur efnið afar nýstárlegum tökum í þessari óvenjulegu bók og varpar nýju ljósi á áleitin efni sem eru mjög í deiglunni.