Höfundur: Unnur Þóra Jökulsdóttir

Bókin er afrakstur rannsóknarvinnu höfundar, sem ferðaðist víðs vegar um landið og leitaði uppi sögur af huldufólki og mannfólki sem þekkir huldufólk.

Hver er staða huldufólks í samtímanum? Eru sögurnar bara geymdar í bókum uppi í hillu eða er enn til fólk sem sér og hefur samskipti við huldufólk? Hvernig er með álagablettina og huldugripina sem þekktust fyrr á tíð, er það allt týnt og tröllum gefið eða nýtur það enn virðingar og helgi?

Unnur fór norður og vestur, austur og suður, í eyðilega firði og þéttbýlar sveitir jafnt sem blómlega kaupstaði og þorp, og hvarvetna hitti hún fyrir fólk sem kunni gamlar eða nýjar sögur af álfum og huldufólki, óútskýrðum fyrirbærum og undarlegum örlögum. Hefurðu séð huldufólk? – Ferðasaga er fölskvalaus og hlýleg frásögn af ferð Unnar á vit hulduheima þjóðsagnanna en líka nýrra sagna og huliðsvera nútímans – hún reynir jafnvel sjálf að skyggnast inn í huldufólksbústaði með aðstoð konu sem sér fleira en flestir.

Hér má lesa einstakar lýsingar á landslagi, fólki og stöðum í bland við sögur þessa heims og annars. Unnur Jökulsdóttir er meðal annars þekkt fyrir frásagnir sínar af siglingum um heimshöfin og metsölubókina Íslendingar, og sýnir hér enn hve vel henni lætur að lifa sig inn í framandi heima og lýsa af einlægni því sem fyrir augu ber.