Höfundur: Vigfús Ingvar Ingvarsson

Trú er að finna allt frá óræðri kennd eða leit til djúprar reynslu og formlegrar iðkunar í trúarsöfnuði.

Hvar og hvernig fær fólk trúarþörf sinni svalað? Hvernig mótast trú sem verður kjölfesta í lífi fólks og grunnur að stuðningi við trú og líf annarra? Er hægt að styðja við trúarmótun og jafnframt draga úr hættu á að trú geti orðið jarðvegur misréttis og jafnvel misnotkunar?

Þannig er spurt í þessari bók. Þetta er fræðibók en flestir hlutar hennar eiga að vera öllum áhugasömum aðgengilegir. Áhersla er á líf og lífsreynslu fólks sem um er fjallað, sérstaklega á mótunartíma.

Lífsreynsla höfundar býr einnig að baki þessum skrifum og rannsóknum. Sérstaklega kynni hans og konu hans, Ástríðar Kristinsdóttur, af kyrrðarstarfi einkum andlegri fylgd.

Andleg fylgd (spritual direction) byggir á fornri hefð á nýju blómaskeiði frá síðari hluta 20. aldar. Ýmislegt af efninu er varla til annars staðar á íslensku enda víða leitað fanga. Það er m.a. hvatinn að útgáfu bókarinnar.

Vigfús Ingvar Ingvarsson er guðfræðingur og fyrrum sóknarprestur á Egilsstöðum (Vallanesprestakall), þar sem hann er búsettur. Hann hefur aflað sér aukinnar menntunar og reynslu með námsdvölum vestanhafs og í Þýskalandi, með áherslu á praktíska guðfræði. Bókin er ritgerð til MA gráðu við guðfræðideild Háskóla Íslands skrifuð undir leiðsögn dr. Péturs Péturssonar prófessors og lokið haustið 2012.