Sögusvið þessa stórbrotna verks er hið ímyndaða strandríki Costaguana í Suður-Ameríku, á róstusömum tímum heimsvalda- og nýlendustefnu. Charles Gould ræður yfir silfurnámu sem hann erfði frá föður sínum. Hann verður heltekinn af að bjarga silfrinu úr klóm gjörspilltrar ríkisstjórnar landsins og leitar til Nostromos eftir aðstoð. Nostromo er af ítölskum ættum, alþýðuhetja sem allir treysta og telja óspilltan með öllu. En silfrið nær líka tökum á Nostromo og það hefur afdrifaríkar afleiðingar í för með sér.

Í þessari mögnuðu sögu er lýst margslungnum persónum í fjölþjóðlegu samfélagi sem er í stöðugri mótun, allt logar í átökum; uppþot, ofbeldi og spilling eru daglegt brauð. Jafnhliða er fengist við sígild efni; spillingarmátt valds og græðginnar – og ekki síst hvers ástin má sín í samfélagi þar sem slík öfl ná yfirhöndinni.

Joseph Conrad (1857-1924) er einn áhrifamesti rithöfundur heimsbókmenntanna. Áður hefur komið út eftir hann á íslensku skáldsagan Innstu myrkur (Heart of Darkness), en eftir þeirri bók gerði Francis Ford Coppola hina rómuðu kvikmynd Apocalypse Now. Nostromo er eitt mikilvægasta verk Josephs Conrads og skyldulesning fyrir alla sem unna klassískum bókmenntum.