San Francisco:
Nicolas og Perenelle Flamel eiga einn dag eftir ólifaðan og einu verki ólokið. Þau verða að verja borgina. Skrímslunum sem var safnað saman á Alcatraz hefur verið sleppt lausum. Takist ekki að stöðva þau tortíma þau öllu sem á vegi þeirra verður. Seiðkonan og gullgerðarmaðurinn njóta aðstoðar tveggja öflugustu stríðsgarpa sögu og goðsagna. Er þetta upphafið að endalokum mannkyns?

Danu Talis:
Sophie og Josh Newman ferðuðust tíu þúsund ár aftur í tímann þegar þau eltu John Dee og Virginiu Dare. Í þessu goðsagnakennda eyríki hefst orrustan um framtíð heimsins – og þar lýkur henni. Scathach, Prómeþeifur, Palamedes, Shakespeare, Saint-Germain og Jóhanna af Örk eru líka á eyjunni. En enginn veit hvor tvíburinn bjargar heiminum og hvor tortímir honum.

Í dag vinnst sigur í orrustunni um heiminn – eða hún tapast.

Töfradísin er lokabindið í mögnuðum bókaflokki Michaels Scott um síðasta mánuðinn í lífi gullgerðarmannsins Nicolas Flamel. Fyrri bækurnar, Gullgerðarmaðurinn, Töframaðurinn, Seiðkonan, Særingamaðurinn og Eiðrofinn, eiga sér trygga aðdáendur um allan heim en bókaflokkurinn hefur komið út í 37 löndum.

Guðni Kolbeinsson þýddi.