Höfundur: Eduardo Mendoza

Þegar sveitadrengurinn Onofre Bouvíla kemur til Barcelona stendur þar yfir undirbúningur heimssýningarinnar miklu 1888 og borgin vex ógnarhratt. Fyrsta starf hans felst í að dreifa flugritum fyrir stjórnleysingja en brátt aukast umsvifin og með kænsku kemst Onofre til metorða í undirheimum borgarinnar. Þegar árin líða auðgast hann mjög á glæpum og braski en ríkidæmið færir honum ekki hamingju. Þegar ný heimssýning er boðuð í Barcelona 1929 lætur Onofre einskis ófreistað til að öðlast hylli fólksins – og stúlkunnar Maríu. Stefnan er sett til sólglitrandi himins.

Undraborgin er óður til lífsins í Barcelona; saga ofin furðum og töfrum, blóði, grimmd og ást. Í heillandi og margbrotinni veröld þessarar síkviku borgar getur allt gerst. Og það gerist.

Eduardo Mendoza er fæddur 1943 í Barcelona og hefur skrifað fjölda bóka; Undraborgin er þeirra þekktust og dáðust. Bókin kom upphaflega út á Spáni 1986 og var gefin út hérlendis í kynngimagnaðri þýðingu Guðbergs Bergssonar fimm árum síðar. Hann ritar jafnframt formála þessarar nýju útgáfu.

„Þetta er spennandi reyfari, hér er mikið um dularfulla atburði og sérkennilegt fólk.“
Örn Ólafsson / DV

„Skemmtilegur lestur ... ósvikin kátína.“
Jóhann Hjálmarsson / Morgunblaðið