Hildur, Linda og Margrét tilnefndar til Fjöruverðlaunanna

Þrjár bækur frá Forlaginu eru tilnefndar til Fjöruverðlaunanna – bókmenntaverðlauna kvenna og kvára á Íslandi. Allar bækur eru í flokki barna- og ungmennabókmennta en hægt er að lesa umsagnir dómnefndar hér fyrir neðan.

Hrím eftir Hildi Knútsdóttur
Hrím er fantasía sem gerist á kunnuglegu en þó framandi Íslandi og er saga um náttúruna, manneskjurnar, ástina og örlögin sem aldrei eru vís. Á hugvitsamlegan og næman hátt segir Hildur Knútsdóttir sögu Jófríðar, unglingsstúlku sem tekst á við áskoranir unglingsáranna ásamt því að þurfa að axla óbærilega þunga ábyrgð þegar framtíð fólksins hennar hvílir skyndilega á henni. Hrím er hörkuspennandi og stundum ógnvekjandi skáldsaga sem ómögulegt er að leggja frá sér.“

Ég þori! Ég get! Ég vil! eftir Lindu Ólafsdóttur
„Barátta íslenskra kvenna fyrir auknu jafnrétti hefur ratað á bók sem ætluð er börnum, Ég þori! Ég get! Ég vil! Höfundur mynda og texta er Linda Ólafsdóttir. Sagan er sögð með heillandi og merkingarþrungnum myndum og texta þar sem móðir rifjar upp og dóttir spyr spurninga. Frásögn af kvennafrídeginum 1975 kallast á við 24. október þessa árs og sýnir að enn þarf að berjast. Fallegt verk með skemmtilegum myndum og stuttum, hnitmiðuðum texta sem bæði uppfræðir og skemmtir.“

Íslensk myndlist og fólkið sem ruddi brautina eftir Margréti Tryggvadóttur
„Í bókinni Íslensk myndlist og fólkið sem ruddi brautina fjallar Margrét Tryggvadóttir um listafólkið sem lagði grunn að íslenskri listasögu. Að auki greinir hún í stuttu máli frá ýmsum aðferðum sem notaðar eru við listsköpun. Bókin er einstaklega vel unnin, umbrotið vandað, myndirnar vel valdar og textinn á fallegu máli. Hér er á ferðinni sannkallað listaverk sem er um leið mjög fróðlegt og vekur áhuga á listum.“

Við óskum Hildi, Lindu og Margréti innilega til hamingju með tilnefningarnar!

INNskráning

Nýskráning