Pétur Gunnarsson hlýtur viðurkenningu Hagþenkis

Pétur Gunnarsson rithöfundur hlaut í gær viðurkenningu Hagþenkis árið 2009 fyrir ævisögu sína um Þórberg Þórðarson. Viðurkenningarhátíðin fór fram í Þjóðarbókhlöðunni  þar sem framkvæmdastýra Hagþenkis, Friðbjörg Ingimarsdóttir afhenti Pétri Gunnarssyni viðurkenningarskjal fyrir hönd félagsins og kr. 750.000 í verðlaunafé.

Í ræðu sinni sagði Hrefna Róbertsdóttir, formaður viðurkenningaráðs Hagþenkis, meðal annars um bækur Péturs:

„Höfundur leggur sig allan fram við að reyna að skilja þann margbrotna og sérstæða persónuleika sem Þórbergur var og gerir það þannig að maðurinn verður ljóslifandi, mennskur og stundum berskjaldaður í sinni sérvisku og breyskleika … Umfjöllunin er opinská, heiðarleg, hlý og djúp.“

Viðurkenningarráð fyrir árið 2009 var skipað fimm félagsmönnum Hagþenkis af ólíkum fræðasviðum og hafa þeir fundað reglulega síðan um miðjan október. Í ráðinu voru auk Hrefnu þau Ingólfur V. Gíslason félagsfræðingur, Jónína Vala Kristinsdóttir uppeldis- og menntunarfræðingur, Kristín Unnsteinsdóttir uppeldis- og kennslufræðingur og Jóhann Óli Hilmarsson fuglafræðingur og ljósmyndari.

Smelltu hér til að lesa ávarp Péturs.

INNskráning

Nýskráning