Þú ert hér://Álfrún Gunnlaugsdóttir
Álfrún Gunnlaugsdóttir

Álfrún Gunnlaugsdóttir

Álfrún Gunnlaugsdóttir er fædd 18. mars 1938. Hún tók stúdentspróf frá MR 1958. Lic. En fil. Y en letras frá Universidad de Barcelona 1965. Dr. Phil. frá Universidad Autónoma de Barcelona 1970. Vann að doktorsritgerð við Háskólann í Lausanne í Sviss 1966 til 1970. Lektor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands 1971 til 1977. Dósent í almennri bókmenntafræði frá 1977 til 1987 og prófessor frá 1988.

Álfrún hefur verið meðal virtustu höfunda þjóðarinnar síðan hún gaf út sína fyrstu bók, smásagnasafnið Af manna völdum (1982).  Hún hlaut Menningarverðlaun DV í bókmenntum 1985 fyrir skáldsöguna Þel. Skáldsagan Hringsól var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 1990 og hefur komið út í Frakklandi og Danmörku. Yfir Ebrofljótið var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2001, og Rán var tilnefnd til sömu verðlauna árið 2008. Fyrir Rán hlaut hún það ár bæði Menningarverðlaun DV í bókmenntum og Fjöruverðlaunin.

Í skáldverkum sínum lætur Álfrún fortíð og nútíð iðulega takast á í huga persónanna. Söguhetjur hennar horfa til baka, nauðugar eða viljugar eftir atvikum, og máta stöðu sína í samtímanum við afdrifarík tímabil í fortíðinni.