Hörður Kristinsson látinn

Hörður fæddist á Akureyri árið 1937 en ólst upp á Arnarhóli í Eyjafjarðarsveit. Hann lauk doktorsprófi í grasafræði frá háskólanum í Göttingen árið 1966 og stundaði um árabil rannsóknir á íslenskum plöntum. Hörður var prófessor í grasafræði við Háskóla Íslands um skeið og síðar forstöðumaður Akureyrarseturs Náttúrufræðistofnunar en sinnti sérfræðistörfum frá árinu 1999.

Fjölmörg rit liggja eftir Hörð en hér verður látið nægja að geta tveggja þeirra. Annað er Íslenska plöntuhandbókin – Blómplöntur og byrkningar sem kom fyrst út hjá Erni og Örlygi árið 1986 og var þá fyrsta handbókin sem birti litljósmyndir og útbreiðslukort af meginþorra íslensku flórunnar. 2. útgáfa þessarar vinsælustu handbókar sinnar tegundar kom út hjá Máli og menningu árið 1998. Verkið birtist loks í nýjum búningi árið 2010 og hefur verið endurprentað margoft síðan, þúsundum til gagns og gleði. Plöntuhandbókin er fáanleg á ensku og þýsku auk íslensku.

Hitt verkið sem hér verður minnst á er samstarfsverkefni Harðar, Þóru Ellenar Þórhallsdóttur grasafræðings og listamannsins Jóns Baldurs Hlíðberg, Íslensk flóra – blómplöntur og byrkningar, sem Vaka-Helgafell gaf út í stóru broti árið 2018. Er hér um að ræða einstakan kjörgrip – í senn fróðleiksnámu og listaverk – yfirgripsmesta rit sem út hefur komið á Íslandi um íslenskar plöntur. Það kom fáum á óvart er þetta stórvirki hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2018.

Forlagið þakkar fyrir gjöfult og ljúft samstarf við einstakan vísindamann og fræðara, og sendir aðstandendum innilegar samúðarkveðjur.

INNskráning

Nýskráning