Hungurleikarnir

Hungurleikarnir fá góða dóma

Hungurleikarnir er fyrsta bók í þríleik en bækurnar hafa notið gríðarlegra vinsælda undangengin ár. Fyrsta bókin kom út á íslensku fyrir jólin og hefur hún fengið frábæra dóma hjá íslenskum bókarýnum. Bókin er skrifuð fyrir unglinga en eins og Kristjana á DV tekur fram í sínum dómi þá á hún fullt erindi til fullorðinna líka. Í dómi sem birtist í Morgunblaðinu á dögunum fær bókin fjórar stjörnur og segir Una Sighvatsdóttir sem skrifar dóminn bókina hafa „allt sem þarf til að krækja lesandann fastan: Söguheimurinn er forvitnilegur, atburðarásin spennandi og manni fer fljótt að þykja vænt um aðalpersónurnar.“

Sagan gerist í framtíðinni og fjallar í stuttu máli um Hungurleika sem haldnir eru á hverju ári í ríkinu Panem og hvert umdæmi í ríkinu sendir einn strák og eina stelpu til að taka þátt.  Keppnin er sýnd í beinni útsendingu um allt land og reglurnar eru einfaldar – sá sigrar sem heldur lífi. Fylgst er sérstaklega með keppendunum sem koma úr tólfta umdæmi og hvernig þau reyna að leika leikinn á nýjan máta til að halda lífi.

Kvikmynd gerð eftir fyrstu sögunni er væntanleg í kvikmyndahús í vor og bíða margir aðdáendur bókanna eftir henni með óþreyju. Hér má sjá sýnishorn úr myndinni og nánari upplýsingar um kvikmyndina má finna á heimasíðu kvikmyndarinnar.

INNskráning

Nýskráning