Metsölubækur

Metsölubækur Forlagsins

Á uppsöfnuðum metsölulista Félags íslenskra bókaútgefanda á tímabilinu 1. janúar til 24. desember 2011 er að finna níu frábærar bækur frá Forlaginu. Það er því með sanni hægt að segja að þetta séu metsölubækur Forlagsins árið 2011.

Íslenskar skáldsögur eru áberandi á listanum enda var skáldsagnaútgáfan fyrir þessi jól með glæsilegasta hætti. Einvígið, Málverkið, Konan við 1000° og Feigð komast allar á lista yfir vinsælustu bækur ársins og hafa þessar bækur líklega leynst í mörgum jólapökkum.

Frönsk svíta kom út í september á árinu í tengslum við Bókmenntahátíð í Reykjavík og kom dóttir höfundar til landsins til að kynna bókina og líf og störf móður sinnar. Skáldverkið fékk gríðarlega góða dóma og viðtökur eftir því. Gamlinginn sem skreið út um gluggann og hvarf er tvímælalaust ein vinsælasta bók ársins, bókin kom út í kilju í haust og hefur verið í efstu sætum metsölulista síðan þá. Fyrir jólin kom bókin einnig út í innbundinni útgáfu og seldist sú bók upp á lager fyrir jólin.

Líklega hefur engin bók fengið eins mikla umfjöllun á árinu eins og bókin Ríkisfang: Ekkert sem kom út í september. Bókin fjallar um átta fjölskyldur sem flýja skelfilegar aðstæður í Al Waleed-flóttamannabúðunum og fá hæli á Akranesi. Haldin var fundaröð um málefni flóttamanna í tengslum við útgáfu bókarinnar og  gagnrýnendur og fjölmiðlafólk hafa keppst við að hrósa höfundi bókarinnar fyrir bæði áhrifamikla og vandaða frásögn sem varpar ljósi á aðstæður og reynslu flóttamanna.

Sannkallað bollakökuæði fór um landið í sumar þegar bókin Bollakökur Rikku kom út. Bókin er sérlega falleg uppskriftabók þar sem alls kyns tegundir af bollakökum og skreytingar á þær er að finna. Önnur handbók hefur verið gríðarlega vinsæl á árinu en það er Íslenskur fuglavísir. Bókin kom út í sumar í endurbættri og aukinni útgáfu og hafa fuglaáhugamenn á öllum aldri greinilega fagnað útgáfunni þar sem bókin ein af vinsælustu bókum ársins.



INNskráning

Nýskráning