Strandhögg á meginlandinu

Spennusagan Sólstjakar eftir Viktor Arnar Ingólfsson mun koma út á vegum tékkneska forlagsins Moba á næstu misserum. Bókin sem kom út fyrir síðustu jól hefur þegar vakið verðskuldaða athygli erlendra útgefenda og er einnig væntanleg í kilju hér heima með haustinu. Moba-menn létu sér ekki nægja nýjasta krimma Viktors heldur tryggðu sér einnig sögu eftir Stellu Blómkvist, Morðinu í alþingishúsinu. Hermt er að sá dularfulli höfundur vinni nú að nýrri bók og er morgunljóst að margir bíða spenntir eftir henni enda hefur Stella ekki sent frá sér bók síðan 2006.

Nágrannar Tékka í vestri, Þjóðverjar, eru ekki síður svag fyrir íslenskum bókum en þeir virðast hneigðari fyrir sögulegan fróðleik nú um stundir. Þannig var samið um útgáfu á bók Vésteins Ólasonar, Samræður á söguöld, við forlagið Ludwig Verlag og kollegar þeirra hjá Bouvier Verlag keyptu Wagner og Völsunga eftir Árna Björnsson. Forlagið Orlanda mun gefa út ævisögu Vigdísar Finnbogadóttur eftir Pál Valsson og ævisaga Snorra Sturlusonar, skráð af Óskari Guðmundssyni, mun koma út hjá Böhlau Verlag.

INNskráning

Nýskráning