Ungur íslenskur ljósmyndari í New York fær ögrandi verkefni: Hann er beðinn að taka myndir af konu sem er ekkja eftir frægan starfsbróður hans og vön fyrirsæta. Konan er einnig íslensk en hefur lítil tengsl við land og þjóð önnur en bernskuminningar sínar. Ljósmyndarinn ungi heillast af ekkjunni, lífsreynslu hennar, útgeislun og aldri - og hún hrífst af ákafa hans og einbeitni. Þegar þau hittast í Napólí skömmu síðar verður ólgandi borgin til þess að styrkja böndin á milli þeirra og loks er ferðinni heitið til Íslands, á vit upprunans. Þar bíða þeirra töfrar yfirþyrmandi og síkvikrar náttúru og tungumáls sem hún hefur næstum gleymt, himneskar samverustundir - og óhjákvæmileg leiðarlok ...

Feimnismál er fyrsta skáldsaga Sigrúnar Davíðsdóttur. Sigrún hefur lengi verið búsett erlendis og er útvarpshlustendum að góðu kunn fyrir pistla sína. Hér sýnir hún á sér nýja hlið með frumlegri og heillandi skáldsögu um óvæntar kenndir, ómótstæðilegt aðdráttarafl og þær hindranir sem hugurinn býr til.