Höfundur: Brynjar Karl Óttarsson

Berklarnir voru sannkallað þjóðarmein í upphafi 20. aldar. Eyjafjörður fór ekki varhluta af þeim skörðum sem berklarnir hjuggu. Með samstilltu átaki tókst Eyfirðingum og landsmönnum öllum að snúa vörn í sókn og reisa heilsuhæli fyrir berklasjúklinga á Norðurlandi.

Kristneshæli var tekið í notkun síðla árs 1927 og þjónaði sínu upphaflega hlutverki til ársins 1960. Á þessum rúmu þremur áratugum varð Kristnes örlagavaldur í lífi barna og fullorðinna sem þar dvöldust. Hælið var griðastaður og heimili en einnig afplánun og endastöð. Við slíkar aðstæður verða til sögur sem persónur og leikendur deila ekki svo glatt með öðrum. Þá fer þeim fækkandi sem upplifðu berklatímann á Hælinu og urðu til frásagnar.

Í bókinni koma sumar af þessum sögum fyrir augu almennings í fyrsta skipti. Bókin byggir að miklu leyti á sögum fyrrverandi vistmanna á Kristneshæli sem höfundur hefur skrásett um nokkurra ára skeið. Sögurnar, sem hvergi hafa birst áður, gefa innsýn í daglegt líf á Hælinu. Endalaus bið og tilbreytingarsnauð tilvera þar sem dauðinn var daglegt brauð knúði á frumkvæði og framtakssemi sjúklinga. Stofnun hagsmunasamtaka, bætt vinnuaðstaða og fjölbreyttara félagslíf gerði hið daglega líf berklasjúklingsins bærilegra.

Í bland við sögur vistmanna er stuðst við dagbækur, sendibréf, blaðagreinar, fundargerðabækur og fleiri heimildir. Bókin samanstendur af fræðilegri umfjöllun og sögulegum skáldskap auk fjölda áður óbirtra ljósmynda sem glæða frásögnina lífi. Afraksturinn er heildstæð samantekt um líf fólksins á Kristneshæli. Herdís Björk Þórðardóttir sá um umbrot bókarinnar.