Höfundur: Hlynur Níels Grímsson

Sjúkur læknir í sjúku samfélagi. Er hann rétti maðurinn til að fást við hinn allra erfiðasta sjúkdóm? Hvað hefur hann að gefa sjúklingum sínum? Og hvað sér hann þegar horfir sjálfur í spegil? Hlynur Níels Grímsson ætlaði að verða rithöfundur þegar hann var ungur maður en ákvað svo að vera praktískur og fara í læknisfræði. Nú stenst hann ekki mátið lengur og sendir frá sér skáldsögu þar sem reynsla hans sem læknir er í forgrunni. Enginn mun líta heilbrigðiskerfið sama auga eftir að hafa lesið Krabbaveisluna. Langt er síðan nýr höfundur hefur kvatt sér hljóðs með jafn hárbeittri og nístandi rannsókn á samfélagi sínu og Hlynur Níels gerir í þessari bók. Um leið er Krabbaveislan hrífandi skáldverk þar sem húmor og jafnvel fegurð bregður einnig fyrir í smásjá höfundar.