Loftnet klóra himin er önnur ljóðabók Þórunnar með sautján ára millibili. Sú fyrri, Fuglar, kom út árið 1991. Höfundurinn myndskreytir nýju bókina sjálf og kemur þar með út úr skápnum sem myndlistarkona. Myndirnar eru í senn frumlegar, ljóðrænar og frábær viðbót við heildarverkið. Yrkisefni Þórunnar eru af ýmsu tagi; hversdagslífið, dauðinn, ástin, hinar ýmsu týpur, konur og önnur dýr; öllu er þessu tvinnað saman í listræna heild sem leiðir okkur um dýpri stig tilverunnar. Þórunn hefur einstakt lag á að fanga hið ljóðræna í hversdeginum og festa á blað.

Eitt karlmannsrif er ekki gott stöff í heila konu.

Eftir að Guð skapaði konuna beint

varð hún betri.

Síðan er ekkert fall til

bara sakleysi

þrátt fyrir hættulegan heilann.