Noam Chomsky er án efa nafnkunnasti málvísindamaður samtímans og nýtur sérstöðu hvað varðar hin víðtæku áhrif sem kenningar hans hafa haft á ýmsar greinar mannlegra fræða, til að mynda sálfræði og heimspeki.

Mál og mannshugur kynnir lesandanum ýmis meginatriði í kenningum þessa áhrifamikla höfundar í þremur köflum, sem fjalla um það hvernig rannsóknir á tungumálinu hafa varpað ljósi á þá ráðgátu sem mannshugurinn er, fyrr á tímum og á okkar dögum – og hver þessi áhrif kunni að verða í framtíðinni. Bókina byggir Chomsky á þremur fyrirlestrum um efnið sem hann hélt við Kaliforníuháskóla í Berkeley í janúar 1967.

Í inngangi Halldórs Halldórssonar er framlag Chomskys sett í sögulegt samhengi við strauma í málvísindum á 20. öld til að varpa ljósi á vægi þess og undirstrika aðalatriði kenningar hans.