Meistari allra meina – ævisaga krabbameins hefur vakið mikla athygli víða um heim fyrir aðgengilega, ítarlega og trausta umfjöllun um flókið og vandmeðfarið efni.

Hér er saga krabbameins rakin, sagt frá fjölbreyttum birtingarmyndum þess og viðleitni til lækningar, allt frá elstu heimildum til nýjustu meðferða og uppgötvana. Gerð er nákvæm grein fyrir því hvernig þekkingu á sjúkdómnum hefur fleygt fram, sagt frá sjúklingum, læknum og vísindamönnum, þrotlausum rannsóknum, óvæntum uppgötvunum, misskilningi og mistökum, árangri og sigrum. Bókin er afar yfirgripsmikil og skrifuð af víðtækri þekkingu og einlægum áhuga á viðfangsefninu, en lýsir um leið persónulegri reynslu læknis af að hlynna að krabbameinssjúklingum og aðstandendum þeirra, fræða þá og leiða gegnum sjúkdómsferlið.

Siddhartha Mukherjee er menntaður í læknisfræði og líffræði, starfandi háskólakennari og krabbameinssérfræðingur í New York. Bókin hefur unnið til fjölmargra verðlauna og viðurkenninga og hlaut meðal annars Pulitzer-verðlaunin í flokki fræðirita 2011. Ólöf Eldjárn þýddi.

Bókin er gefin út með styrk frá Krabbameinsfélagi Íslands og Miðstöð íslenskra bókmennta.