Hann kenndi mér að halda mig á mottunni um leið og hann gerði mig reiða svo mig langaði að slíta af mér hlekki. Þar er spennan. Það sem gerir lífið spennandi. Að syndga og slíta af sér hlekki og taka út refsinguna. Þessi línudans á línunni voðalegu, að vilja vera á mörkunum og teygja þau út svo heimurinn skáni. Að bögglast við að vera hamingjusamur í heimi þar sem næstum ekkert má.

Þórunn Jarla Valdimarsdóttir segir hér frá uppvexti sínum í Reykjavík rokksins og hippaáranna, þar sem erfiður skilnaður foreldranna varpaði skugga á gleðina, frá frjálsu stúdentalífi í Lundi og Mexíkó, kommúnum, ástmönnum og litríkum samferðamönnum. Opinská frásögnin er ofin trega og hamingju, léttleika og djúpum söknuði. Bókin er sjálfstætt framhald hinna marglofuðu Stúlku með fingur og Stúlku með maga, þar sem Þórunn notaði heimildir og skáldlega túlkun til að segja sögu móður sinnar og formæðra.