Höfundur: Siri Hustvedt

Þegar Boris fer frá Míu eftir þrjátíu ára hjónaband missir hún vitið – þó aðeins tímabundið. Þegar hún kemur aftur til sjálfrar sín ákveður hún að jafna sig sumarlangt á æskuslóðum. Í fyrstu er hún upptekin af eigin eymd en smám saman fer fólkið í bænum að vekja áhuga: öldruð móðir hennar og vinkonurnar á elliheimilinu, táningsstelpurnar sem hafa skráð sig á bókmenntanámskeið hjá henni, unga móðirin í næsta húsi …

Tengsl fólks og togstreita, dulin og opinská átök, leyndir draumar og sagðar og ósagðar sögur, allt verður það Míu að efnivið í endurskoðun á lífinu og verðmætum þess.

Siri Hustvedt er einn dáðasti samtímahöfundur Bandaríkjamanna. Hún er af norskum ættum og í æsku dvaldi hún eitt sumar í Reykjavík; að hennar sögn var það þá sem bókmenntaáhugi hennar kviknaði fyrir alvöru. Bækur hennar hafa verið þýddar á tugi tungumála en Sumar án karlmanna er sú fyrsta sem kemur út á íslensku, eftirminnileg, grátbrosleg og einstaklega heillandi kvennasaga.

Nanna Þórsdóttir þýddi.