Tilræðið fjallar um Amin Jaafari sem er virtur skurðlæknir í Tel Aviv. Hann og kona hans, Sihem, eru palestínsk að uppruna en ísraelskir ríkisborgarar, vel stæð og vinamörg í samfélagi gyðinga – og hamingjusöm. Það heldur Amin að minnsta kosti.

Dag einn er veitingastaður í nágrenni sjúkrahússins sprengdur í loft upp og Amin eru færð þau válegu tíðindi að ekki einungis sé Sihem meðal hinna látnu heldur bendi ýmislegt til þess að hún beri ábyrgð á tilræðinu. Í angist sinni fer Amin á eigin spýtur að grafast fyrir um tvöfalt líf eiginkonunnar. Rannsóknin leiðir hann á slóðir forfeðra sinna og löngu týndra ættingja sem búa skammt frá Tel Aviv en þó í gerólíkum heimi.

Tilræðið varpar ljósi á örvæntingu kúgaðrar þjóðar – jafnt á þá sem grípa til örþrifaráða og hina sem heldur vilja líkna og lækna.

Bókin kom fyrst út á frönsku árið 2005 og er níunda skáldsaga Yasminu Khadra en sú fyrsta sem kemur út á íslensku. Yasmina Khadra er hins vegar dulnefni Mohammeds Moulessehoul. Mohammed var hershöfðingi í alsírska hernum og skrifaði sex bækur undir eigin nafni til ársins 1988. Þá setti herinn honum skilyrði; annað-hvort hætti hann að skrifa eða öll handrit hans yrðu ritskoðuð af hernum. Mohammed sætti sig við hvorugan kostinn og hóf að skrifa undir nafni eiginkonu sinnar. Þegar Mohammed gat hætt í hernum árið 2001 fluttist hann til Frakklands og svipti hulunni af Yasminu Khadra.