Cheryl er 26 ára gömul og finnst hún hafa misst tökin á lífinu. Hún er komin á ystu nöf, sjálfsvirðingin farin og vanlíðanin yfirþyrmandi. Einn góðan veðurdag sér hún ferðabók um margra mánaða gönguleið sem er nefnd Kambaslóðin við Kyrrahafið. Allsendis óvön og illa undirbúin ákveður hún að leggja upp í þá göngu. Leiðin er löng og torfær og hættur leynast víða. Þessi mikla áskorun styrkir hana samt sem áður og heilar, og Cheryl kynnist sjálfri sér á nýjan hátt í óvæginni náttúru við óblíðar aðstæður.