Lestrarátak Ævars vísindamanns

Viltu verða persóna í brjálaðri vélmennabók?

Í fyrra stóð Ævar Vísindamaður fyrir lestrarátaki í öllum skólum landsins með gríðargóðum árangri, yfir sextíu þúsund bækur voru lesnar og fimm heppnir bókaormar voru dregnir út og fengu að verða persónur í ævintýrabókinni Risaeðlur í Reykjavík. Nú stendur til að endurtaka leikinn og var nýju lestrarátaki ýtt úr vör á fyrsta degi ársins. Átakið stendur til 1. mars 2016 og er fyrir alla krakka í 1.-7. bekk. Í lok átaksins verða dregin út nöfn fimm barna og fá þau í verðlaun að verða persónur í stórhættulegri ævintýrabók eftir Ævar sem kemur út með vorinu: Bernskubrek Ævars vísindamanns 2 – Árás vélmennakennaranna.

Lestrarátakið virkar þannig að fyrir hverjar þrjár bækur sem nemandi les fyllir hann út miða sem finna má á heimasíðu Ævars, www.visindamadur.is. Foreldri eða kennari kvitta á miðann sem síðan er settur í lestrarkassa sem finna má á skólabókasafninu. Því fleiri bækur sem lesnar eru, því fleiri miða á bókaormurinn í pottinum og líkurnar aukast á einstökum vinningi.

Lestrarátakið er hugsjónastarf, unnið af einum bókaormi til að búa til fleiri bókaorma – en það er dýrategund sem má alls ekki deyja út.

INNskráning

Nýskráning