Vinsælustu ljóðin

Ef maður rekst á barn þessa dagana að fara rímað kvæði, ískrandi af kátínu, eru yfirgnæfandi líkur á að það sé eftir Þórarin Eldjárn. Barnaljóðin hans hafa í áratugi notið gríðarlegra vinsælda hjá fólki á öllum aldri, leikskólabörnum jafnt sem ellilífeyrisþegum. Það má jafnvel fullyrða að ef Íslendingar kunna ennþá að ríma og stuðla eftir miðja 21. öldina sé það að stórum hluta Þórarni að þakka.

Árstíðirnar, nýútkomin barnaljóðabók Þórarins, er ellefta kvæðabók skáldsins fyrir börn og barnalegt fólk, eins og hann orðar það sjálfur. Flestar hefur Sigrún systir hans myndskreytt, þar á meðal þá nýjustu.

Fyrsta barnaljóðabók systkinanna kom út 1981 og geymir ljóðabálk um stúlkuna Gleymmérey en það var ekki fyrr en tíu árum síðar sem fyrsta eiginlega barnaljóðasafnið kom út, þar var bókin Óðfluga sem sló eftirminnilega í gegn. Í kjölfarið fylgdu Heimskringla og Halastjarna og seinna komu allar bækurnar þrjár saman út undir titlinum Óðhalaringla.

Grannmeti og átvextir heitir lítil en hnausþykk bók sem systkinin sendu þau frá sér 2001 og góðærisárið mikla 2007 færðu þau lesendum hvorki meira né minna en tvær bækur með barnarími: Gælur fælur og þvælur, þar sem hvert kvæði er ort undir sínum rímnahætti, og Tíu litla kenjakrakka sem kallast skemmtilega á við Tíu litla negrastráka sem olli miklu fjaðrafoki um þær mundir.

Og nú eru það Árstíðirnar. Fyrsta ljóð bókarinnar telur upp árstíðirnar fjórar í þeirri röð sem þær koma og á eftir fylgja fjögur ljóð um hverja árstíð, hvert öðru skrýtnara og skemmtilegra. Þessa bók ættu bókaormar ekki að láta fram hjá sér fara, á hvaða aldri sem þeir eru.

*****
„Jafnt ungir sem aldnir skemmta sér við lestur bókarinnar; það verður ekki á betra kosið.“
Birta Björnsdóttir / Morgunblaðið

INNskráning

Nýskráning