Ljóðin

Þjóð vill ljóð – ljóðakvöldvaka á Súfistanum í kvöld

Það er sjaldgæft að ljóðabækur seljist upp hér á landi strax á útgáfuári. Algengara er að þær seljist hægt og á lengri tíma. Þær fréttir berast þó nú af lager Forlagsins að margar nýjar ljóðabækur þar séu uppseldar eða við það klárast.

Fyrstu upplög bókanna Ljóð af ættarmóti eftir Anton Helga Jónsson, Blóðhófnir eftir Gerði Kristnýju, Tími hnyttninnar er liðinn eftir Berg Ebba Benediksson og Síðdegi eftir Vilborgu Dagbjartsdóttur, sem allar komu út á þessu ári, eru þrotin á lager Forlagsins og er verið að eða búið að endurprenta alla þessa titla.

Til að fagna þessum gleðifréttum og auka enn velgengni ljóðanna efnir Forlagið til ljóðakvöldvöku á Súfistanum, Laugavegi 18, fimmtudagskvöldið 2. desember. Þar koma fram skáldin Sigurbjörg Þrastardóttir, Anton Helgi Jónsson, Sigurður Pálsson, Vilborg Dagbjartsdóttir, Bergur Ebbi Benediktsson og Þórarinn Eldjárn auk þess sem lesið verður úr bókum Gerðar Kristnýjar, Hallbergs Hallmundssonar og Jóhannesar úr Kötlum sem geta af ólíkum ástæðum ekki komið sjálf.

Dagskráin hefst kl. 20 – verið velkomin!


INNskráning

Nýskráning