Bækurnar Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar

Ungmennabókin Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoega og Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024!

Úr umsögn dómnefndar fyrir Hrím:
Hrím er mikilvæg saga sem sýnir á kröftugan og spennandi hátt viðkvæmt samband manneskjunnar við náttúruna og talar þannig fyrir sjónarmiðum umhverfisverndar. Hrím er ákall til ungra lesenda og okkar allra að taka málstað náttúrunnar.
Hildur Knútsdóttir er fjölhæfur og afkastamikill höfundur sem skrifar bæði fyrir börn og fullorðna og velur sér sögusvið jöfnum höndum úr hversdeginum og heimi fantasíunnar. Hildur hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir bækur sínar, m.a. Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2016 fyrir ungmennabókina Vetrarhörkur. Hrím hlaut verðlaun bóksala 2023 og var tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna sama ár.

Úr umsögn dómnefndar fyrir Skrímslavinafélagið:
Bókin tekur á vináttu, flækjunum þegar tvíeyki verður að þríeyki, því að verða útundan eða fá að vera með. Hún býður upp á spjall um ákvarðanir í daglegu lífi barna, hverjar séu afleiðingar fyrir þau sjálf og aðra og hvernig hægt sé að taka ábyrgð á gjörðum sínum. Umfjöllunarefnið er beintengt raunveruleika íslenskra barna, en vandamálin sem fjallað er um verða samt aldrei stærri en ævintýrið.


INNskráning

Nýskráning