Myrkir músíkdagar

Blóðhófnir sunginn

Á Myrkum músíkdögum verður frumflutt verkið „Níu nætur“ sem sænska tónskáldið Emil Råberg samdi við texta úr verðlaunabókinni Blóðhófni eftir Gerði Kristnýju. Verkið er samið fyrir Kammerkór Suðurlands sem einnig flytur tvö önnur verk eftir Råberg á tónleikunum, annað í félagi við Söngfjelagið, en báðum kórunum stjórnar Hilmar Örn Agnarsson.

Ljóðabálkurinn Blóðhófnir hlaut gríðargóðar viðtökur þegar hann kom út haustið 2010 og fyrir hann hlaut Gerður Kristný ýmsar viðurkenningar, meðal annars Íslensku bókmenntaverðlaunin. Bálkurinn hefur verið þýddur á fjölda tungumála, komið út víða um heim og brot úr honum hafa verið flutt á ljóðahátíðum í Evrópu, Asíu og Suður-Ameríku.

Emil Råberg er fæddur nyrst í Svíþjóð 1985. Hann lauk tónsmíðanámi frá tónlistarháskólanum í Piteå og hefur samið talsvert fyrir kóra, enda kórsöngvari sjálfur.

Tónleikarnir með verkum Emils Råberg verða í Hörpuhorni sunnudaginn 1. febrúar kl. 14.30 og er aðgangur ókeypis. Bæði tónskáldið og ljóðskáldið verða viðstödd frumflutning Níu nátta.

INNskráning

Nýskráning