Daegradvol_175

Dægradvöl væntanleg í endurútgáfu

Dægradvöl eftir Benedikt Gröndal er af mörgum talin ein besta sjálfsævisaga sem skrifuð hefur verið á Íslandi. Þar tekst Gröndal á meistaralegan hátt að flétta saman sitt eigið lífshlaup og það sem er að gerast í samfélaginu í kringum hann svo úr verður bæði góður aldarspegill yfir nítjándu öldina og persónuleg saga merkilegs og sérkennilegs manns.

Gröndal dregur upp margar frábærar mannlýsingar og segir gamansögur af samferðamönnum af miklu fjöri og húmor, en hann fegrar heldur ekki sjálfan sig eða dregur úr veikleikum sínum.

Í formála bókarinnar skrifar Guðmundur Andri Thorsson: „Þessi útgáfa er að heita má samhljóða  þeirri sem  kom út hjá Máli og menningu árið 1965 í umsjá Ingvars Stefánssonar, og hefur ekki verið prentuð síðan. Eins og kemur fram í greinargóðum formála Ingvars er þar prentuð sú gerð verksins sem Gröndal hreinritaði, og var geymd á handritadeild Landsbókasafnsins, en áður hafði verið prentuð eldri gerð Gröndals af verkinu og ófullkomnari um margt.  Vert er að vekja sérstaka athygli á því að aftast eru, rétt eins og í útgáfu Ingvars, prentaðar úrfellingar sem Gröndal gerði og oft er eftirsjá að, ekki síst hin fræga sjálfslýsing hans, sem eingöngu er að finna í eldri gerð verksins.  Áhugasömum lesendum er bent á að lesa þessar viðbætur, þar sem höfundur er jafnan sjálfum sér líkur.“

Hér er pdf  fyrir þá áhugasömu með hluta formála Ingvars Stefánssonar frá 1965.


INNskráning

Nýskráning