Einar Már

Einar Már á höfundakvöldi í Norræna húsinu

Norræna húsið stendur fyrir höfundakvöldum fyrsta þriðjudag hvers mánaðar á komandi vetri. Höfundur október mánaðar er Einar Már Guðmundsson en hann mun kynna nýja bók sína, Hundadaga, á höfundakvöldi í Norræna húsinu 6. október kl. 19:30. Páll Valsson stýrir umræðum.

Hundadagar er leiftrandi skemmtileg saga sem fjallar um Jörund hundadagakóng, Jón Steingrímsson eldklerk og fleira fólk fyrri alda. Farið er um víðan völl í tíma og rúmi; sögulegar staðreyndir eru á sínum stað en andagiftin er aldrei langt undan. Frásögnin leiðir okkur á vit ævintýra fortíðar þar sem eldgos á Íslandi orsakar hugsanlega byltingu í Frakklandi sem svo aftur hefur víðtæk áhrif annars staðar … Og kannski á fortíðin brýnna erindi við samtíðina en okkur grunar?

Einar Már Guðmundsson hefur verið meðal virtustu og vinsælustu skálda og rithöfunda þjóðarinnar frá upphafi ferils síns. Hróður hans hefur borist víða því bækur hans hafa verið þýddar á mörg tungumál og orðið vinsælar, ekki síst Englar alheimsins sem er ein víðförlasta skáldsaga eftir Íslending fyrr og síðar. Þess má geta að í ár eru tuttugu ár liðin frá því að Einar Már hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir Engla alheimsins.

Viðburðurinn er hluti af Höfundakvöldaseríu Norræna hússins veturinn 2015-16.

Höfundakvöld Norræna hússins
1.september – Jens Andersen (DK)
6. október – Einar Már Guðmundsson
3. nóvember – Camilla Plum (DK)
1. desember – Rawdna Carita Eira (NO/Samísk)
12.janúar – Kristina Sandberg (SE)
2.febrúar – Gaute Heivoll (NO)
1. mars – Åsne Seierstad (NO)
5.apríl – Susanna Alakoski (SE/FI)
3.maí – tilkynnt síðar

INNskráning

Nýskráning