Fermingarbækur

Frábærar í fermingarpakkann

Nú líður senn að páskum og fermingar hafnar. Við ákváðum af því tilefni að taka saman nokkrar bækur sem gætu hentað vel í fermingarpakkann:

Ljóðasafn Gerðar Kristnýjar geymir allar ljóðabækur Gerðar: Ísfrétt, Launkofa, Höggstað, Blóðhófni og Strandir en sumar þeirra hafa verið ófáanlegar árum saman. Ljóðin hafa verið hryggjarstykkið í rithöfundarferli Gerðar og fyrir þau hefur hún hlotið margvíslegar viðurkenningar.

Ástarljóð Davíðs Stefánssonar – Fá íslensk skáld ortu meira um ástina og á fjölbreyttari hátt en Davíð Stefánsson. Hann orti meira að segja um það hvernig þráin deyr í gráma hversdagsins – sem honum þótti sennilega það eina ófyrirgefanlega í ástum. Guðmundur Andri Thorsson skrifar inngang og valdi kvæðin í bókina ásamt Silju Aðalsteinsdóttur.

Íslensk kvæði – Vigdís Finnbogadóttir valdi íslensk ljóð og vísur sem henni hefur þótt vænt um í gegnum tíðina. Ljóð og vísur sem þjóðin hefur farið með og sungið í aldanna rás.

Íslensk orðsnilld – Fleyg orð úr íslenskum bókmenntum sem Ingibjörg Haraldsdóttir valdi.

Gæfuspor: Gildin í lífinu – Í Gæfusporum er leitast við að draga fram kosti og galla mannsins, tilfinningar hans, hættulega hegðun, fagra hugsun og skyn á tímann. Sumir kunna að vilja skýr svör við spurningu eins og „Hvað er hamingja?“ og fá í framhaldi af því ráðleggingar um hvernig hægt er að öðlast hana. Markmiðið er ekki að gefa slík svör eða ráð, heldur að tendra leiðarljós og hvetja lesandann til að leita svara upp á eigin spýtur.

Ljóðasafn Steins Steinars – Þegar Steinn Steinarr lést á fimmtugasta aldursári vorið 1958 hafði hann öðlast sess sem eitt virtasta ljóðskáld Íslendinga á 20. öld. Síðan þá hafa ljóð hans fundið hljómgrunn hjá hverri nýrri kynslóð í landinu. Þetta rit hefur að geyma öll þau ljóð sem Steinn bjó sjálfur til útgáfu auk ýmissa ljóða sem ekki komu út á bók fyrr en ríflega þremur áratugum eftir lát hans. Endurútgefin í mars 2014.

Ljóðaúrval Jónasar Hallgrímssonar – Jónas Hallgrímsson (1807–1845) er einn af höfuðsnillingum íslenskrar ljóðagerðar. Allt frá fyrstu tíð hafa ljóð hans verið tungutöm löndum hans, ungum sem öldnum. Þau hafa verið gefin út hvað eftir annað, í heild og í úrvali, auk þess sem ekkert safn íslenskra kvæða seinustu tveggja alda kemur út án þess að þar séu ljóð eftir Jónas.

Megas: Textar 1966-2011 – Yfirgripsmikið textasafn Megasar fáanlegt á ný, nú með áritaðari sjálfsmynd höfundar.Eins og Megas tekur sjálfur fram í aðfaraorðum er þetta ekki ljóðabók heldur textasafn: hér er kominn obbinn af söngtextum hans ortum frá 1966 til 2011. Margir þeirra hafa aldrei birst áður en aðrir hafa aflað honum skáldfrægðar. Textar hans eru óvægnir og hranalegir, fallegir, heimspekilegir, fyndnir, ónotalegir, háðskir, jafnvel einlægir – alltaf sláandi á einhvern hátt.

Biblían (harðspjalda) – Nú er Biblían komin út hjá JPV útgáfu í nýrri þýðingu sem unnið hefur verið að í rúman hálfan annan áratug. Þetta er fyrsta heildarþýðing Biblíunnar frá árinu 1912 en sú sjötta frá upphafi. Aftur á móti er þetta ellefta íslenska biblíuútgáfan en sumar útgáfurnar voru prentaðar mörgum sinnum. Athugið að Biblian er til í mörgum útgáfum og litum, nánar um úrvalið á vefsíðu forlagsins.

Prjónabiblían er einstök íslensk uppflettibók um prjóntækni og jafnframt hugmyndavaki fyrir munsturgerð og prjónahönnun, bæði fyrir byrjendur og lengra komna.

Stóra saumabókin er ómissandi handbók fyrir alla sem áhuga hafa á saumaskap og langar til að sauma fallegan fatnað, skemmtilega fylgihluti, skrautmuni, gluggatjöld eða annað til heimilisins. Hér er margvíslegum aðferðum við saumaskap lýst skref fyrir skref, rætt um efni og áhöld og sýnt nákvæmlega með ítarlegum skýringarljósmyndum hvernig fara skal að.

Vatnið í náttúru Íslands – Þar sem er líf, þar er vatn. Það er undirstaða lífsins á jörðinni og forsenda tilveru okkar. En hvað er vatn, hvaðan kemur það, hvaða hlutverki gegnir það? Er það óþrjótandi auðlind? Í þessu glæsilega stórvirki er fjallað um vatn frá ótal hliðum. Sögusviðið er ekki aðeins Ísland, heldur er farið um gjörvallan heiminn til að sýna fram á grundvallarhlutverk vatns í þróun mannkynsins og framvindu sögunnar.

Íslenskir málshættir – Í bókinni Íslenskir málshættir er fjöldi málshátta skýrður, sagt frá því hvaðan þeir eru komnir og úr hvernig aðstæðum þeir hafa sprottið og bent á hvernig þeir eru notaðir í nútímamáli. Bókinni er ekki aðeins ætlað að auðvelda fólki að auðga mál sitt og öðlast skilning á því, heldur jafnframt að stuðla að réttri notkun málsins og málsháttanna.

Íslensk orðtök – Í bókinni Íslensk orðtök er fjallað um merkingu orðtakanna og uppruna og jafnframt má finna lýsingar á horfnum vinnubrögðum og þjóðháttum. Bókinni er ekki aðeins ætlað að auðvelda fólki að ná betri tökum á blæbrigðum íslenskrar tungu og öðlast skilning á henni, heldur jafnframt að stuðla að réttri notkun málsins og orðtakanna.

Íslenskir málshættir og íslensk orðtök eru einnig fáanlegar saman í einum pakka.

Saga orðanna – Í Sögu orðanna er sjónarhornið vítt; hér eru raktar ættir og saga fjölmargra íslenskra orða, merking þeirra skýrð og gerð grein fyrir skyldum orðum í erlendum málum, fornum og nýjum. Bókin er rituð í léttum og aðgengilegum stíl og höfðar til allra aldurshópa.

Bílar í máli og myndum leiðir okkur á einstakan hátt í gegnum sögu þessa merkilega farartækis sem umbylti 20. öldinni. Hér er fjallað um ríflega 1200 bíla af öllum stærðum og gerðum, margbreytilegar vélar, sögu ástsælustu tegundanna og mennina á bak við þær.

Mótorhjól í máli og myndum leiðir okkur á myndrænan hátt í gegnum 120 ára sögu þessa einstaka farartækis. Hér er fjallað um ríflega 1000 flottustu mótorhjól sögunnar, merkilegustu mótorana og þekktustu framleiðendurna. Hvort sem áhuginn beinist að glæsilegu Guzzi-hjólunum eða einstöku vélarhljóðinu í Harley, þá er þetta bókin sem fær hjart mótorhjólaáhugamannsins til að slá hraðar.

Stafræn ljósmyndun: skref fyrir skref er hugmyndarík handbók fyrir alla sem vilja ná góðum tökum á ljósmyndun, hvort sem þeir eru að stíga fyrstu skrefin eða eru reyndir myndasmiðir. Í bókinni er að finna hagnýtar leiðbeiningar og myndræn framsetning hjálpa þér að ná tökum á helstu aðferðum og veita þér innblástur til að móta þinn eigin stíl.

Þetta er aðeins örlítið brot af þeim titlum sem Forlagið býður upp á, hægt er að skoða allar gjafabækur hér.

INNskráning

Nýskráning