Bergur Ebbi

Bergur Ebbi

Bergur Ebbi er fæddur árið 1981. Hann varð stúdent frá MH, lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands og stundaði nám í framtíðarfræðum í Toronto í Kanada. Bergur Ebbi er fjölhæfur listamaður og skemmtikraftur og hefur fengist við sitt af hverju, m.a. uppistand, tónlist og þáttagerð, auk ritstarfa.

Fyrsta bók Bergs Ebba var ljóðabókin Tími hnyttninnar er liðinn sem kom út árið 2010 en fyrir handrit hennar hlaut hann Nýræktarstyrk Bókmenntasjóðs. Hann hefur sent frá sér fleiri ljóð en árið 2017 vakti hann einnig mikla athygli með bók sem ber heitið Stofuhiti – ritgerð um samtímann, þar sem hann rýnir af snerpu og eldmóði í upplýsingaflæði, samfélagsmiðla og fjölmargt annað sem einkennir samtímann og hefur áhrif á sjálfsmynd fólks og viðhorf til umheimsins.

Auk bókanna hefur Bergur Ebbi skrifað fjölda beittra og skemmtilegra pistla í blöð og samið handrit að leiknu efni. Þá hefur hann starfað sem grínisti með uppistandshópnum Mið-Íslandi, haldið úti vinsælum hlaðvarpsþáttum og samið lög og texta.