Þú ert hér://Einar Kárason
Einar Kárason

Einar Kárason

Einar Kárason er fæddur í Reykjavík 24. nóvember 1955. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Tjörnina árið 1975 og stundaði nám í almennri bókmenntasögu við HÍ frá 1976 til 1978. Hann stundaði almenn störf til sjós og lands fram til ársins 1978, en hefur verið rithöfundur að aðalstarfi síðan þá.

Einar birti ljóð á árunum 1978-1980 en 1981 kom út fyrsta skáldsaga hans, Þetta eru asnar Guðjón. Tveimur árum síðar kom út fyrsta bókin í þríleiknum um lífið í reykvísku braggahverfi á eftirstríðsárunum, Þar sem djöflaeyjan rís, en á eftir fylgdu Gulleyjan og Fyrirheitna landið. Þessar sögur urðu gríðarlega vinsælar og hafa orðið kveikja að leikriti, kvikmynd og söngleik.  Auk fjölda skáldsagna hefur Einar sent frá sér ljóð, smásagnasöfn, viðtalsbækur, ferðaþætti og bækur fyrir börn. Skáldsögur hans hafa verið þýddar á fjölmörg tungumál og komið út víða um lönd.

Einar hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar og verðlaun á ferlinum. Gulleyjan var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 1987, Heimskra manna ráð og Kvikasilfur til sömu verðlauna 1996 og Stormur árið 2004. Menningarverðlaun DV komu í hlut Einars 1986 fyrir Gulleyjuna og 2004 fyrir Storm, en í Passíusálmunum (2016) er sú saga sögð frá öðru sjónarhorni. Þá hefur hann hlotið verðlaun úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins. Fyrirheitna landið var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 1989, Kvikasilfur 1994, Stormur 2004 og Ofsi 2008 – og Einar hlaut verðlaunin fyrir síðastnefndu bókina sem gerist á Sturlungaöld og hefur ásamt Óvinafagnaði frá 2001 endurvakið áhuga Íslendinga á Sturlungaöldinni. Haustið 2012 kom þriðja bindi þessa merka flokks út, Skáld og hið fjórða, Skálmöld árið 2014.