Þú ert hér://Halldór Laxness
Halldór Laxness

Halldór Laxness

Halldór Laxness var fæddur í Reykjavík 23. apríl árið 1902. Hann var afar afkastamikill rithöfundur, skrifaði fjölda skáldsagna, sumar í nokkrum hlutum, fimm leikrit og leikgerð að einni skáldsögunni, fyrir utan kvæði, smásagnasöfn, greinasöfn og endurminningabækur. Halldór hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1955 fyrir að endurnýja íslenska frásagnarlist.

Í bókum Halldórs Laxness birtast ólíkar skoðanir og eru þær sjaldnast hans eigin heldur þjóna einungis tilgangi skáldverksins hverju sinni. Margar af þeim persónum er hann hefur skapað í verkum sínum hafa búið um sig í þjóðarvitundinni. Engu er líkara en þar sé á ferð fólk af holdi og blóði sem hafi verið til – sé til – og muni lifa góðu lífi um ókomin ár. Það er eins og þær hafi öðlast sjálfstætt líf, menn vitna í þær eins og nákominn ættingja – ekki síst í tilsvör þeirra sem mörg hver eru meitluð og standa nánast eins og orðskviðir.

Bækur Halldórs Laxness hafa komið út á 43 tungumálum í meira en 500 útgáfum. Hann lést 8. febrúar 1998.

Í stuttu máli
Halldór Laxness var sonur hjónanna Sigríðar Halldórsdóttur húsfreyju (1872–1951) og Guðjóns Helga Helgasonar vegaverkstjóra (1870–1919). Fyrstu árin bjó fjölskyldan við Laugaveg en í júnímánuði árið 1905 flutti hún í Mosfellssveit og settist að í Laxnesi þar sem þau hófu búskap. Foreldrar Halldórs höfðu bæði góða söngrödd og voru jafnan haldnar söngæfingar í Laxnesi; Guðjón lék meðal annars á orgel og stjórnaði kirkjusöng í sveitinni.

Skólaganga Halldórs Laxness varð ekki löng. Veturinn 1918 hóf hann nám í Menntaskólanum í Reykjavík og sat þá í bekk sem taldi að sögn sextán skáld, meðal þeirra Tómas Guðmundsson. Halldóri reyndist erfitt að einbeita sér að náminu því að hann var kominn á kaf í að skrifa skáldsögu, Barn náttúrunnar, sem hann sendi frá sér árið 1919. Dómar um þessa frumraun skáldsins unga voru lofsamlegir. Arngrímur Jónsson sagði í lok gagnrýni sinnar í Alþýðublaðinu: „Og hver veit nema að Halldór frá Laxnesi eigi eftir að verða óskabarn íslensku þjóðarinnar.“

Nú voru örlög Halldórs ráðin. Upp frá þessu sendi hann frá sér bók nánast á hverju ári, stundum fleiri en eina í meira en sex áratugi. Hann skírðist til kaþólskrar trúar 6. janúar árið 1923 og dvaldi í klaustri um hríð. Nokkrum árum síðar tók hann að boða sósíalisma af miklum móð en um það bil sem hann hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1955 má segja að hann hafi verið orðinn afhuga kenningum.

Skáldverk Halldórs Laxness eru rismikil og raunsönn. Þau varpa ljósi á íslenska sögu og þjóðerni og kunnustu söguhetjur hans eru samnefnarar íslenskrar þjóðarsálar. Verk hans eru í senn þjóðleg og alþjóðleg, þau lifa og eru lesin hvarvetna í heiminum.

Halldór Laxness gekk að eiga Ingibjörgu Einarsdóttur en þau skildu síðar. Þau eignuðust saman einn son, Einar. Auður Laxness var seinni kona Halldórs og dætur þeirra eru Sigríður og Guðný. Áður en Halldór gekk í hjónaband í fyrra skipti hafði hann eignast dóttur, Maríu, með Málfríði Jónsdóttur.

„Dóri minn …“
Halldór Laxness komst snemma í kynni við bækur. Hann las upphátt fyrir heimilisfólkið í Laxnesi á bernskuárunum og ekki leið á löngu þar til menn fóru að taka eftir áhuga hans á skriftum. Faðir hans, Guðjón Helgi Helgason, skrifaði Halldóru systur sinni bréf þann 26. febrúar árið 1911 en þá var drengurinn á níunda ári: „Dóri minn er farinn að gera ýmsa snúninga úti við þegar gott er veður, oftast kann hann best við að vera með bækur eða blað og penna þegar hann er inni. Hann er mjög skýr og skemmtilegur drengur, man það sem hann les og getur sagt frá því skemmtilega.“ Smám saman spurðist skriftagleði drengsins út. Henni lýsir Halldór í minningabókinni Í túninu heima: „Strákurinn situr 10 klukkutíma á dag og párar út stílabækur. Honum verður ekki haldið frá þessu. Hann er ekki eins og fólk er flest. Það hlýtur að vera mikil mæða fyrir hjónin. Sveitin komst við.“