Kamban í Hannesarholti, fimmtudagskvöld

Guðmundur Kamban (1888-1945) var í hópi þekktustu rithöfunda Íslendinga um sína daga. Hann hefur verið talinn í hópi fremstu leikskálda þjóðarinnar og skáldsögur hans, einkum Skálholt, voru þýddar á annan tug tungumála og m.a. gefnar út í Bretlandi og Bandaríkjunum, en það var óalgengt á millistríðsárunum.

Hann var líkt og Gunnar Gunnarsson meira að segja orðaður við Nóbelsverðlaunin í sænskum blöðum. Um nokkurra ára skeið á fjórða áratugnum var hann búsettur í Þýskalandi og sú dvöl reyndist honum afdrifarík því að það orð komst á að hann hefði verið hallur undir stjórnvöld þar.

Nýlega kom út bók um Kamban eftir bókmennta- og leikhúsmanninn Svein Einarsson og hefur ferill Kambans aldrei verið rakinn jafn ítarlega, né heldur tildrögin að morðinu á frelsisdegi Dana 5. maí 1945. Margt nýtt kemur fram í þessari bók um stórbrotinn höfund og dramatíska ævi hans.

Húsfyllir var á Kambanskvöldi hjá Rithöfundasambandi Íslands á dögunum og áhugi mikill á lífi þessa merka manns. Því verður haldið annað kvöld til heiðurs Guðmundi Kamban nk. fimmtudagskvöld í Hannesarholti við Grundarstíg. Þar mun Sveinn segja frá bókinni og sýnd verður mynd þeirra Viðars Víkingssonar og Hallgríms H. Helgasonar, frænda skáldsins, um Kamban. Myndin var gerð fyrir RÚV þegar 100 ára afmælis Kambans  var minnst árið 1988.

Dagskráin hefst kl. 20 og er öllum opinn.

INNskráning

Nýskráning