Lubbi kemur aftur

Lubbi finnur málbein, bók um íslensku málhljóðin eftir Þóru Másdóttur og Eyrúnu Ísfold Gísladóttur, vakti mikla athygli þegar hún kom út 2009, hlaut frábærar viðtökur barna, foreldra og gagnrýnenda og Upplýsing, félag bókasafns- og upplýsingafræðinga, valdi hana bestu íslensku fræðibókina fyrir börn það árið. Enda brýtur bókin blað í framsetningu á íslensku málhljóðunum og leggur þannig góðan grunn að lestrarnámi, ekki síst fyrir þá sem eiga við tal- og lestrarörðugleika að stríða. Bókinni fylgir geisladiskur þar sem Skólakór Kársness flytur vísur Þórarins Eldjárns um málhljóðin við alþekkt lög, en vísurnar má einnig finna í bókinni prýddar líflegum teikningum eftir Freydísi Kristjánsdóttur. Hugmyndasmiðirnir á bak við Lubba, sem báðir eru talmeinafræðingar, hafa haldið áfram að þróa efnið um Lubba og málbeinin hans og hafa nú gefið út kennsluefni sem byggir á bókinni: fjórar öskjur sem hafa að geyma fjölbreytt efni til málörvunar og hljóðavinnu með börnum á öllum aldri. Efnið er til sölu á heimasíðunni lubbi.is, þar sem einnig eru birtur ýmiss konar fróðleikur og skemmtilegar hugmyndir að leikjum með Lubbaefnið.

Bókin um Lubba hefur verið ófáanleg um skeið en nú hefur endurprentun verið ræst og nýtt upplag af Lubbi finnur málbein er væntanlegt á lager Forlagsins innan örfárra vikna.

INNskráning

Nýskráning