Maxímús í Kóreu

Tónlistarmúsin mikla, Maxímús Músíkús, sem fjölmörg íslensk börn kannast við gerir nú víðreist í Asíu. Bókin kom nýverið út í Kóreu og berst hróður hennar hratt um heiminn. Fjölmargir útgefendur og tónleikahaldarar hafa lýst yfir áhuga og ánægju með bókina enda veitir hún kærkomna innsýn inn í heim sígildrar tónlistar.

Það er ekki eingöngu íslensk ritlist sem ferðast um heiminn heldur einnig tónlistin. Kóresk börn fá þannig tækifæri til þess að hlýða á flutning Sinfóníuhljómsveitar Íslands, m.a. á hinu velþekkta lagi „Á Sprengisandi“, því með bókinni fylgir geisladiskur með upplestri sögunnar og allri tónlistinni og hljóðunum sem músin heyrir í ævintýri sínu. Bókinni hefur verið frábærlega tekið í Kóreu og hefur Maxímús þegar ratað inn á metsölulista vinsælla barnabóka þar í landi.

Sagan  Maxímús Músíkús heimsækir hljómsveitina er annars fjörug saga um litla mús sem villist inn í tónlistarhús. Þar er heil sinfóníuhljómsveit að hefja æfingu og músin Maxi þvælist fyrir fótum hljóðfæraleikaranna. Hann lærir hvað hljóðfærin heita og hvers konar hljóð þau gefa frá sér og gefst að lokum tækifæri til að hlusta á tónleika innan um prúðbúna tónleikagesti.

Söguna skrifar Hallfríður Ólafsdóttir, leiðandi flautuleikari við Sinfóníuhljómsveit Íslands, en myndirnar teiknar starfsbróðir hennar í hljómsveitinni, Þórarinn Már Baldursson víóluleikari. Von er á nýrri bók eftir Hallfríði og Þórarinn nú í vor. Í þetta skipti trítlar Maxímús í tónlistarskólann og verður margs vísari um hvað þar fer fram. Sinfóníuhljómsveit Íslands mun endurtaka leikinn í apríl og skipuleggja tónleika fyrir yngstu hlutsendurna í tengslum við bókina en þá verða afar ungir einleikarar í fararbroddi.

INNskráning

Nýskráning