Með blessun hinnar þýsku Kollu Bergþórs

Skáldsaga Hallgríms Helgasonar 10 ráð til að hætta að drepa fólk og byrja að vaska upp er nýkomin út í Þýskalandi hefur fengið rífandi góðar viðtökur. Þarlendir gagnrýnendur keppast við að lofa hana í hástert og fékk bókin til að mynda fimm stjörnur í tímaritinu Stern og í stórblaðinu Frankfurter Allgemeine er hún sögð „fyndnasta og þéttasta bók Hallgríms Helgasonar til þessa“.

Fyrsta upplag bókarinnar seldist upp á tveimur vikum og annað upplag er senn á þrotum, en salan tók mikinn kipp eftir að Christine Westermann, sem af sumum er kölluð „hin þýska Kolla Bergþórs“, mælti með bókinni í þætti sínum á WDR 2, og sagði: „Mann langar til að hringja í vin sinn á þriðju hverri blaðsíðu til að lesa upp fyrir hann kafla svo hann geti hlegið með manni.“ Ekki amaleg meðmæli það.

Tvö leikhús á þýska málsvæðinu hafa þegar falast eftir því að sviðssetja söguna og er staðfest að leiksýning byggð á bókinni verði frumsýnd í Borgarleikhúsinu í Salzburg haustið 2011.

Bókin hefur einnig komið út í Danmörku og Hollandi og í vikunni kom hún út í Rússlandi. Þá er hún væntanleg í Póllandi í maí og í Noregi, Tékklandi og á Ítalíu síðar á árinu.

 

Fleiri dómar úr þýskum fjölmiðlum

„Helgasyni hefur enn einu sinni tekist að skrifa samfélagslega skáldsögu  þar sem gaman og alvara blandast saman á undraverðan hátt.“  
Die Welt

„Þessi bók er gróf og ósmekkleg en þó umfram allt: Ótrúlega fyndin.“
Focus

„Næstum því fullkomin þroskasaga morðingja.“
Der Freitag

„Skemmtilegasta skáldsaga vorsins. Eins og kokteill blandaður og hristur af Coen bræðrum, Tarantino og Woody Allen öllum í einu.”
Lesensart

„Bókmenntalegur Tarantino.“  
vorablesen.de

„Líður áfram eins og kvikmynd.“
amazon.de

INNskráning

Nýskráning