Sigrún og Kuggur

Nýjar sögur um Kugg og Mosa

Sigrún Eldjárn leggur nú lokahönd á tvær nýjar sögur um Kugg og Mosa, Málfríði og mömmu Málfríðar. Þetta eru ellefta og tólfta bókin í smábókaröðinni um þessar vinsælu persónur sem hafa verið á vappi síðan 1987.

Nýju bækurnar heita Listahátíð og Ferðaflækjur. Í þeirri fyrrnefndu ákveða vinirnir að taka þátt í listahátíð og skipta með sér verkum: mamma Málfríðar semur tónverk og flytur það í Hörpu, Málfríður skrifar leikrit og sýnir í Þjóðleikhúsinu og sjálfur málar Kuggur mynd sem fer upp á vegg í Listasafni Íslands. Þeim til mikillar furðu rekast þau á mýs í öllum þessum merkilegu menningarstofnunum – hvaða mýs skyldu það vera?

Ferðaflækjur segir frá því þegar Kuggur fer með mæðgunum upp í sveit. Á leiðinni þurfa þau að glíma við ýmsar þrautir og flækjur sem lesendur fá að hjálpa þeim að leysa. Nýju Kuggsbækurnar koma á markað í vor, í tæka tíð fyrir listahátíð og ferðaflækjur sumarsins.

INNskráning

Nýskráning